Fyrstu niðurstöður rannsóknar hópsýkingar á Rangárvöllum
Þann 7. ágúst síðastliðinn barst tilkynning til Heilbrigðiseftirlits Suðurlands um að hópur einstaklinga sem höfðu gist á Rangárvöllum í lok júlí hefðu veikst af iðrasýkingu. Heilbrigðiseftirlitið fór samdægurs í eftirlitsheimsókn á gististaðinn og tók vatnssýni til rannsókna. Fljótlega barst staðfesting þess efnis að E. coli saurgerlar hefðu greinst í neysluvatni á staðnum en þó í litlu magni.
Matvælastofnun og sóttvarnalæknir voru upplýst um málið þann 12. ágúst. Stýrihópur var kallaður saman í samræmi við verklag við rannsóknir á vatns- eða matarbornum hópsýkingum. Upplýsingum var safnað til þess að kortleggja umfang málsins, þar með talið um þá sem veiktust en heilsugæslan skipulagði sýnatökur frá einstaklingum sem tengdust málinu.
Samkvæmt þeim tilkynningum sem hafa borist veiktust minnst sextíu manns sem höfðu gist á Rangárvöllum á síðustu vikum. Þó er ljóst að fleiri veiktust þar sem ekki liggja fyrir tæmandi upplýsingar um alla ferðamenn, sérstaklega þá sem búsettir eru erlendis. Nú hefur sýkla- og veirufræðideild Landspítala staðfest að nóróveira greindist hjá að minnsta kosti sex einstaklingum. Niðurgangur af völdum nóróveira er algeng orsök þarmasýkinga um allan heim. Hópsýkingar af völdum nóróveira eru vel þekktar þar sem hópar fólks koma saman, hvort sem er á gististöðum, í skólum eða á skemmtiferðaskipum.
Algengustu einkenni nóróveirusýkinga eru uppköst og/eða niðurgangur sem fylgt geta kviðverkir, beinverkir, höfuðverkur og stundum vægur hiti. Sjúkdómurinn gengur í langflestum tilfellum yfir á einum til tveimur sólarhringum án nokkurrar meðferðar. Smitleiðir eru margar og getur veiran smitast beint manna á milli við snertingu, en önnur algeng smitleið er með fæðu og neysluvatni.
Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hefur séð um sýnatökur á neysluvatni og meðal annars tekið sýni á tveimur stöðum til viðbótar á Rangárvöllum. Veikindi komu upp víðar á svæðinu en á Rjúpnavöllum og er leitast við að staðsetja smitið með frekari sýnatöku. Sýni verða send til greiningar á rannsóknarstofu erlendis til að kanna hvort nóróveirur hafi borist í vatnsból.
Almennt um neysluvatn og fráveitur: Mikilvægt er að frágangur á fráveitum sé með þeim hætti að mengi ekki umhverfið. Ef frágangur er ekki með fullnægjandi hætti er hætt við útbreiðslu smitsjúkdóma frá rotþróm. Sérlega mikilvægt er að gæta að því að skilgreina vatnsvernd umhverfis vatnsból þannig að ákveðið svæði sé algerlega friðað og að engir mengunarvaldar séu í nálægð við vatnsbólið.