Fara í efni

Fyrsta tilfelli kúariðu í Skotlandi í 10 ár

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Kúariða hefur greinst á nautgripabúi í Skotlandi. Þetta er fyrsta tilfelli hefðbundinnar kúariðu í landinu í 10 ár. Fáein tilfelli hafa komið upp í Evrópu á undanförnum árum en lítil hætta er á að sjúkdómurinn komi upp á Íslandi.

Dreifingarbann hefur verið sett á nautgripi frá búi í Aberdeenshire í Skotlandi eftir að kúariða greindist við reglubundna sýnatöku úr dauðum grip frá búinu. Þarlend stjórnvöld telja að neytendum og búgreininni stafi ekki hætta af frekara smiti skv. upplýsingum yfirvalda þar í landi.

Hættan á að kúariða komi upp á Íslandi er óveruleg sökum þess að hún hefur aldrei greinst hér á landi, lifandi nautgripir hafa ekki verið fluttir inn síðan 1933, bannað hefur verið að flytja inn kjöt- og beinamjöl síðan 1968 og óheimilt er að fóðra nautgripi á kjöt- og beinamjöli síðan 1978.

Kúariða er ekki smitandi sjúkdómur á milli nautgripa. Smitefnið finnst ekki í mjólk eða mjólkurvörum. Rannsóknir benda til þess að eini áhættuþátturinn í dreifingu sjúkdómsins sé þegar nautgripir eru fóðraðir á kjöti eða beinamjöli úr sýktum nautgripum. Kúariða getur borist í menn með neyslu á sýktu kjöti (Creutzfeldt-Jakob).

Kúariða skiptist í tvær gerðir, líkt og sauðfjárriðan, í hefðbundna kúariðu (classical BSE) og óhefðbundna (atypical BSE). Óhefðbundna gerðin lýsir sér eins og Nor98 hjá sauðfénu, þ.e. kemur fram tilviljanakennt í gömlum gripum. 

Árið 2017 greindust 6 kúariðutilvik innan Evrópusambandsins (3 á Spáni, 2 í Frakklandi og eitt á Írlandi) og eitt í Bandaríkjunum. Öll tilvikin voru af óhefðbundnu kúariðugerðinni. Árið 2016 greindust 5 tilvik, 1 á Spáni og 4 í Frakklandi. Öll nema eitt voru óhefðbundin, hefðbundna gerðin greindist í Frakklandi.

Mikið eftirlit er með kúariðu og gilda strangar reglur um sýnatökur, bæði hjá Evrópusambandinu og Alþjóðlega dýraheilbrigðismálastofnuninni (OIE). Alls voru tekin 1.331.238 sýni í Evrópu árið 2017. Af þessu má sjá að örfá tilvik eru að greinast árlega og þá aðallega óhefðbundna gerðin. Það má því segja að þetta tilvik í Skotlandi sé áfall, sér í lagi þar sem ekki hefur greinst hefðbundin gerð af kúariðu í Skotlandi í áratug og landið hafði nýverið verið sett í flokk annarra landa með óverulega áhættu gagnvart sjúkdóminum. Þetta minnir okkur á það að baráttan við smitandi heilahrörnunarsjúkdóma í dýrum er langhlaup, ekki spretthlaup.

Á hverju ári gefur Efsa út skýrslu um riðusýnatökur í jórturdýrum í Evrópu árið áður. Nýjasta skýrslan er frá 2016 en skýrslan fyrir árið 2017 kemur út í nóvember.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?