Fara í efni

Furuhnetur sem valda óbragði í munni

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

 



    
Fjöldi tilkynninga hefur borist í gegnum viðvörunarkerfi Evrópu um matvæli og fóður (RASFF) og einnig frá Bandaríkjunum frá árinu 2009 um furuhnetur sem geta brenglað bragðskyn og valdið óbragði í munni í allt að fjórar vikur eftir neyslu. Grunur leikur á að tvær tegundir furuhnetna, Pinus armandii og Pinus massoniana, sem fundist hafa í blöndu af furuhnetum séu orsakavaldur en þær eru ekki taldar hæfar til manneldis. Talið er að umræddar hnetur eigi uppruna að rekja til Kína. Hægt er með mælingum á fitusýrusamsetningu hnetnanna að greina á milli ætilegra og óætilega tegunda.
 
Varðandi ný tilfelli hér á landi þá vinnur Matvælastofnun í samvinnu við innflytjendur og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga við að finna þessar vörur á markaði og fjarlægja. Þess ber að geta að venjulegar furuhnetur Pinus koraiensis ætlaðar til manneldis valda ekki þessum skaða.

Þeir sem verða varir við brenglað bragðskyn eftir neyslu á furuhnetum eru beðnir um að setja sig í samband við Matvælastofnun eða heilbrigðiseftirlit viðkomandi svæðis. Tengiliður hjá Matvælastofnun er Herdís Guðjónsdóttir (s. 530-4800).

Ítarefni




Getum við bætt efni síðunnar?