Fara í efni

Fullyrðingar um að kjúklingar séu lausir við salmonellu

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Samkvæmt áliti Matvælastofnunar er óheimilt að nota fullyrðingar þess efnis að frosnir eða ferskir kjúklingar á íslenskum markaði séu lausir við salmonellu.  Þetta á við hvort sem um er að ræða íslenska kjúklinga eða innflutta.  Borið hefur á slíkum merkingum á frosnum dönskum kjúklingum í verslunum hér á landi.

Samkvæmt reglugerð 260/1980 með síðari breytingum er óheimilt að setja á markað kjúkling sem í hefur greinst salmonella.  Allt eftirlit með framleiðslu kjúklinga hér á landi tekur mið af því að ekki berist á markað kjúklingar sem eru mengaðir með salmonellu. Samkvæmt landsáætlun Matvælastofnunar eru tekin sýni úr öllum eldishópum kjúklinga og ef salmonella greinist í eldi er þegar gripið til viðeigandi ráðstafana til að tryggja að varan berist ekki á markað.  Greinist salmonella í sláturhópum leiðir það til innköllunar kjúklinganna af markaði.

 

Samkvæmt reglugerð 448/2012 þarf kjúklingum sem fluttir eru til landsins að að fylgja opinbert vottorð sem staðfestir að þeir séu lausir við salmonellu. Þessara vottorða er krafist við flutning til landsins.

 

Að ofansögðu er vísað í  c.lið, 1.mgr. 7.gr reglugerðar ESB nr. 1169/2011 (íslensk reglugerð 1294/2014) þar sem fram kemur að:

 

Matvælaupplýsingar skulu ekki vera villandi einkum þannig að gefið sé í skyn að matvælin búi yfir sérstökum sérkennum þegar reyndin er að öll svipuð matvæli búa yfir þessum sérkennum, einkum með því að leggja áherslu á að í þeim séu eða séu ekki tiltekin innihaldsefni og/eða næringarefni.

 

Það er leitast við að allir kjúklingar á markaði séu lausir við salmonellu.  Ef sumir kjúklingar eru sérstaklega merktir með yfirlýsingum þess efnis að þeir séu án salmonellu er verið að gefa í skyn að þeir búi yfir sérstökum sérkennum, sem er ekki raunin.  Auk þess er ómögulegt er að útiloka með fullri vissu að salmonella geti leynst í hráu kjöti og geta slíkar fullyrðingar veitt neytendum falskt öryggi.

 

 


Getum við bætt efni síðunnar?