Fara í efni

Fuglaflensutilfelli í Evrópu

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Fuglaflensa hefur verið að greinast í fuglum á mörgum stöðum í Evrópu á undanförnum vikum. Matvælastofnun telur litlar líkur á að fuglaflensan berist hingað til lands. Árstími og strangar reglur um innflutning á lifandi fuglum vega þyngst í því mati. Fuglaflensa af þessum stofni hefur aldrei valdið sýkingum í fólki svo vitað sé.

Um er að ræða tilfelli af völdum fuglaflensuveiru af A(H5N8) stofni. Tilkynningar hafa borist frá Ungverjalandi, Póllandi, Króatíu, Þýskalandi, Austurríki, Sviss, Danmörku og Hollandi. Sýkingin hefur aðallega fundist í villtum fuglum en hefur einnig borist í alifugla og þá einkum alifugla í opnum búum.

Þessi stofn fuglaflensuveirunnar er útbreiddur í Asíu og talið er að veiran hafi borist með farfuglum frá Asíu til Evrópu nú í haust. Er það í annað skipti sem það gerist svo vitað sé.

Matvælastofnun fylgist grannt með útbreiðslu fuglaflensu í heiminum, sér í lagi í nágrannalöndum og löndum þar sem farfuglarnir okkar hafa vetursetu. Fuglaflensuveiran berst aðallega með lifandi fuglum og fugladriti.

Stofnunin metur á hverjum tíma líkur á að smit geti borist í alifugla hér á landi. Matið er í megin atriðum tvíþætt, annars vegar hversu miklar líkur eru á að veirurnar berist til landsins og hins vegar á að þær berist í alifugla hér á landi.

Við mat á líkum á að fuglaflensa berist til landsins er litið til ýmissa þátta, s.s. árstíma, í hvaða löndum smitið er, hversu umfangsmikið það er, hvort það er nálægt vetrarstöðvum farfuglanna okkar, um hvaða fuglategund er að ræða og til hvaða aðgerða hefur verið gripið þar sem smitið er. Að svo stöddu telur Matvælastofnun litlar líkur á að þetta smit berist til landsins, þar sem lítið er um komur fugla á þessum árstíma, annarra en stöku flækinga.

Líkur á að fuglaflensa berist í alifugla hér á landi byggjast fyrst og fremst á gæðum smitvarna á búunum. Alifuglabændur ættu ávallt að vera á verði gagnvart einkennum í fuglunum og hafa samband við dýralækni fái þeir grun um sjúkdóm. Einkenni fuglaflensu geta verið margvísleg, s.s. minna varp, minna át, öndunarfæraeinkenni, augnsýkingar, skita og aukinn fjöldi dauðra fugla.

Matvælastofnun tekur árlega sýni úr alifuglum til vöktunar á fuglaflensu, og úr villtum fuglum þegar ástæða hefur verið til, t.d. þegar fuglaflensutilfelli hafa komið upp í nágrannalöndum okkar á þeim tíma sem farfuglar eru að streyma til landsins. Niðurstöður rannsókna er að finna á upplýsingasíðu stofnunarinnar um eftirlitsniðurstöður – dýrasjúkdómaskimun.

Sýkingar í fólki af völdum þessa fuglaflensustofns eru ekki þekktar en skyldir stofnar, A(H5N1) og A(H5N6), hafa valdið alvarlegum veikindum í fólki í Kína. Því er ekki hægt að útiloka að smit geti borist úr fuglum í menn og fólki er því ávallt ráðlagt að gæta smitvarna. Fuglaflensa smitast ekki við neyslu kjöts eða eggja.

Ítarefni

Matvælastofnun og sóttvarnalæknir


Getum við bætt efni síðunnar?