Fara í efni

Frávik í búnaði Fjarðalax í Tálknafirði

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Þann 26. júní sl. barst Matvælastofnun tilkynning um frávik í búnaði Fjarðalax í Laugardal í Tálknafirði. Tilkynningin er í samræmi við 30. gr. reglugerðar 1170/2015 um fiskeldi. Starfsmaður stofnunarinnar fór í eftirlit daginn eftir eða 27. júní og fór þá fram skoðun á búnaði og verkferlum, auk þess sem farið var yfir atburðarás. Að lokinni skýrslugerð verða gerðar tilteknar kröfur um úrbætur á búnaði og verklagi, en ekki var talin hætta á slysasleppingu.

Aðdragandi málsins var sá að við undirbúning á böðun á eldiskví nr. 5 hjá fyrirtækinu kom slaki á nótarpoka sem endaði í skrúfu vinnubáts. Starfsmenn settu öryggisnet innan í nótarpokann á þeim stað þar sem hann var útdreginn og flæktur. Kafarar voru strax kallaðir á staðinn og unnu þeir að því að losa nótarpokann af skrúfu vinnubátsins. Nótarpokinn var skorinn af skrúfunni og fluttur samstundis ofan sjávarborðs. Svæði nótarpokans þar sem skurðurinn var, var saumaður saman en fór ekki í sjó aftur. Í framhaldinu var allur fiskur fluttur úr kví nr. 5 og yfir í nærliggjandi kví. Staðfest er að starfsmenn brugðust við aðstæðum á viðeigandi hátt samkvæmt verkferli fyrirtækisins, en um leið er ljóst að þörf er á tilteknum úrbótum.


Getum við bætt efni síðunnar?