Fara í efni

Framhaldsrannsókn á sauðfjárdauða

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun vinnur að undirbúningi að framhaldi rannsóknar á auknum sauðfjárdauða í fyrra vetur, í samvinnu við aðrar stofnanir og samtök. Rannsóknir sem gerðar hafa verið fram að þessu hafa ekki gefið afgerandi svör. Að því er virðist var um samspil margra þátta að ræða en ekki er hægt að útiloka undirliggjandi orsakir og því er þörf á frekari rannsóknum.

Matvælastofnun, í samvinnu við Landssamtök sauðfjárbænda, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, Bændasamtökin og Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum undirbýr áframhaldandi rannsókn á sauðfjárdauðanum sem olli miklu tjóni hjá bændum veturinn 2014/2015. Valdir verða bæir vítt og dreift um landið sem urðu fyrir miklum afföllum og þeim fylgt náið eftir, tekin sýni og þau borin saman við þá bæi þar sem engin vandamál voru til að kanna hvort einhverjir þættir finnist sem geti skýrt þennan mun.  Beðið er svara frá ráðuneytinu varðandi fjárhagslegan stuðning áður en rannsóknin getur hafist af fullum krafti.

Út frá svörum í spurningakönnun sem lögð var fyrir sauðfjárbændur í sumar, voru valdir níu bæir sem síðan voru heimsóttir af dýralæknum. Þeir skoðuðu féð, tóku blóðsýni og sendu kindur í krufningu að Keldum, þegar það átti við. Niðurstöður þessara rannsókna gáfu engin afgerandi svör. Blóðsýnin gáfu engar vísbendingar um að um smitsjúkdóm væri að ræða. Þær kindur sem sendar voru í krufningu sýndu svipaða heildarmynd, kindurnar voru mjög horaðar þótt þær hafi augljóslega étið fram á síðustu stundu og benda krufningsniðurstöður til næringarskorts. Til viðbótar þessum rannsóknum tók Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins heysýni sem sýndu há gildi af ómeltanlegu tréni.

Þegar heildarmyndin er skoðuð út frá þeim rannsóknum sem framkvæmdar hafa verið hingað til, bendir allt til þess að vandamálið sé samspil margra þátta og má þar einna helst nefna tíðarfar. Sökum mikillar vætutíðar síðasta sumars var erfitt að heyja og má ætla út frá fóðursýnaniðurstöðum að víða hafi heyforðinn samanstaðið af úr sér sprottnu grasi sem dugar skammt til að viðhalda þeirri orku sem fé þarf til að dafna, og ekki síst þegar fóstrin hjá ánum fara að taka til sín. Í kjölfarið tók við afar kaldur vetur og vor sem kallaði enn frekar á orku sem að fóðrið innihélt ekki. Þó er ekki hægt að útiloka undirliggjandi orsakir og er því þörf á frekari rannsóknum. Við rannsóknina munu ýmsar hugmyndir að skýringum verða hafðar til hliðsjónar, m.a. hvort um sé að ræða áhrif mengunar frá eldgosinu í Holuhrauni, en enn er ekkert sem styður þá tilgátu.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?