Fara í efni

Fræðslufundur: Lyfjagjöf og lyfjaleifar í búfé

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun (MAST) heldur fræðslufund um lyfjagjöf og lyfjaleifar í búfé þriðjudaginn 27. apríl 2010 kl. 15:00-16:00. Á fundinum verður fjallað um reglur um lyfjagjöf til afurðagefandi dýra, skráningu lyfja og rekjanleika, ásamt ströngum kröfum um eftirlit með lyfjaleifum í búfjárafurðum.
 
Hægt verður að fylgjast með fræðslufundinum í beinni útsendingu á vef MAST undir Útgáfa - Fræðslufundir. Þar verður einnig birt upptaka að fræðslufundi loknum.
 

Í matvælalöggjöf Evrópusambandsins er gerð aukin krafa um skráningu og rekjanleika á lyfjagjöf til afurðagefandi dýra til að lágmarka magn lyfjaleifa í búfjárafurðum á markaði. Í kjölfar innleiðingar löggjafarinnar hér á landi vinnur MAST nú að því að efla reglur og eftirlit með notkun dýralyfja. Þann 1. apríl s.l. tóku gildi reglur hér á landi um að hross sem send eru til slátrunar verði að vera einstaklingsmerkt. Frá 17. apríl s.l. þarf að skrá alla lyfjagjöf og má ekki meðhöndla hross með lyfjum nema að þau séu einstaklingsmerkt og skráð í gagnagrunn Veraldarfengs (WorldFengur). Sláturhús þurfa nú að ganga úr skugga um að hross sem send eru til slátrunar séu einstaklingsmerkt og kemur það til með að gilda um aðrar afurðagefandi dýrategundir um leið og unnt er.  Í bígerð er miðlægur gagnagrunnur þar sem lyfjagjöf til allra afurðagefanda dýra verður skráð. Markmiðið er að tryggja að útskolunartími lyfja í afurðagefandi dýrum sé virtur til að tryggja að búfjárafurðir á borð við kjöt, egg og mjólk séu heilnæm og án lyfjaleifa.

Fyrirlesarar

    Björn Steinbjörnsson, dýralæknir lyfjamála hjá Matvælastofnun
    Kjartan Hreinsson, dýralæknir heilbrigðiseftirlits hjá Matvælastofnun

Fræðslufundurinn verður haldinn í umdæmisskrifstofu stofnunarinnar í Reykjavík að Stórhöfða 23. Gengið er inn í húsnæði MAST að norðanverðu (Grafarvogsmegin). Allir velkomnir!


Getum við bætt efni síðunnar?