Fara í efni

Fræðslufundur: Innra eftirlit matvælafyrirtækja

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun heldur fræðslufund um innra eftirlit matvælafyrirtækja þriðjudaginn 25. janúar kl. 15-16. Á fundinum verður fjallað um góða starfshætti og þær kröfur sem gerðar eru til innra eftirlits matvælafyrirtækja.

Hin nýja matvælalöggjöf leggur aukna áhersla á ábyrgð matvælaframleiðenda á eigin framleiðslu. Matvælafyrirtækjum ber að tryggja að matvæli séu framleidd við aðstæður sem uppfylla kröfur um góða starfshætti og að matvæli séu örugg til neyslu. Með innra eftirliti sýna matvælafyrirtæki fram á ábyrgð og er innra eftirlit ein af forsendum starfleyfis. Eftirlitsaðilum eins og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga og Matvælastofnun ber að skoða virkni innra eftirlits í eftirlitsheimsóknum. Virkni innra eftirlits er einn af þeim þáttum sem tekinn er til skoðunar þegar tíðni eftirlitsheimsókna er ákveðin. Matvælafyrirtæki geta því haft áhrif á eftirlitskostnað með virku innra eftirliti sem tekur á allri starfsemi fyrirtækisins. 

Á fræðslufundinum verður farið yfir þær kröfur og þá góðu starfshætti sem viðhafa skal við framleiðslu matvæla. Dæmi um góða starfshætti og skilvirkt innra eftirlit verða kynnt, ásamt kynningu á nýjum bæklingi um innra eftirlit.


Fyrirlesarar:

    Dóra S. Gunnarsdóttir, matvælafræðingur hjá Matvælastofnun
    Guðjón Gunnarsson, matvælafræðingur hjá Matvælastofnun
    Sigrún Guðmundsdóttir, heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands
    
Hægt verður að fylgjast með fræðslufundinum í beinni útsendingu á vef MAST undir Útgáfa - Fræðslufundir. Þar verður einnig birt upptaka að fræðslufundi loknum.

Fræðslufundurinn verður haldinn í umdæmisskrifstofu Matvælastofnunar í Reykjavík að Stórhöfða 23. Gengið er inn í húsnæði MAST að norðanverðu (Grafarvogsmegin). Allir velkomnir!


Getum við bætt efni síðunnar?