Fara í efni

Fóður og fóðuröflun úr Engidal enn til skoðunar

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Þann 6. júlí s.l. birti Umhverfisstofnun greinargerð vegna niðurstaðna úr mælingum á díoxíni í jarðvegi. Í greinargerð Umhverfisstofnunar segir m.a. að díoxín í jarðvegi sé í öllum tilvikum undir þeim mörkum sem kalla á takmarkanir á nýtingu, hreinsun jarðvegs eða geta skapað hættu fyrir almenning og lífríki. Þá segir að almenningur þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að rækta í jarðvegi, tína ber eða nýta aðrar náttúruafurðir.  

Við þetta er rétt að setja ákveðna fyrirvara. Eins og fram kemur í skýrslu sérfræðihóps MAST frá apríl síðast liðnum myndast díoxín aðallega við bruna þar sem lífræn efnasambönd komast í snertingu við klór og eru sorpbrennslur oft meginuppspretta losunar. Við brennslu loða efnin við rykagnir og mengast grasbítar aðallega við upptöku ryks við fæðuöflun. Upptaka díoxíns gegnum rætur plantna er í flestum tilfellum óveruleg.

Niðurstöður sérfræðihópsins voru þær að á meðan ekki hefðu farið fram frekari rannsóknir og að teknu tilliti til þeirra mælinga sem þá lágu fyrir væru ekki forsendur til annars en að ætla að sömu aðstæður gildi fyrir árið 2011, að mestu leyti, og  fyrir árið 2010. Mengun væri á svæðinu og endurmengun frá lausum ögnum gæti því ennþá átt sér stað.

Lagt var til í skýrslunni að gerð yrði lítil beitartilraun (3 kindur með lömbum af ómenguðu svæði) til að kanna upptöku díoxína og etv. fleiri efna í Engidal. Slík tilraun myndi sýna gleggri mynd af yfirborðinu en t.d. jarðvegssýni. Tilraun þessari var hrundið af stað þann 11. júlí s.l. og standa að henni MAST og Landssamtök sauðfjárbænda. 

Í skýrslu sérfræðihóps MAST var einnig lagt til að rannsóknir yrðu gerðar á jarðvegi líkt og umhverfisstofnun hefur nú gert. Þær rannsóknir eru hinsvegar ekki fullnægjandi með tilliti til þeirra efna sem eru á yfirborði lands í Engidal. Þær rannsóknir hafa vissulega þýðingu þegar kemur að takmörkunum er varðar nýtingu landsins til beitar til lengri tíma litið en til skemmri tíma þarf að kanna áhrif ryks sem kynni enn að vera á ferðinni á yfirborði landsins.  

Í ljósi ofangreindra atriða verður banni á nýtingu landsins til fóðuröflunar fyrir dýr ætluð til manneldis áfram í gildi. Málið verður tekið upp að nýju þegar niðurstöður beitartilraunar liggja fyrir. 

Getum við bætt efni síðunnar?