Fara í efni

Fleiri kattaflær finnast

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Kattafló hefur nú greinst á fleiri köttum á höfuðborgarsvæðinu. Hætt er við að flóin sé útbreiddari en talið hefur verið. Matvælastofnun telur þó mögulegt að uppræta flóna en til þess þarf samstillt átak hunda- og kattaeigenda. Sérstaka smitgát skal viðhafa á dýrasýningum.

Eins og fram kom í frétt sem birt var á vef Matvælastofnunar 12. febrúar s.l. greindist kattafló (Ctenocephalides felis) á ketti á höfuðborgarsvæðinu í byrjun febrúar en sú tegund flóa hefur örsjaldan fundist hér á landi og hefur ekki verið talin landlæg. Í kjölfar greiningarinnar lét Matvælastofnun leita að flóm á köttum, sem sá sem flóin greindist á, hafði verið í tengslum við. Merki um flær fundust á einum þeirra en ekki flærnar sjálfar. Jafnframt beindi stofnunin tilmælum til dýralækna um að vera vakandi fyrir flóm á köttum og hundum sem komið væri með til þeirra. Tilkynning um grun barst í síðustu viku frá Dýralæknastofu Dagfinns, sem svo var staðfestur á Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum. Um var að ræða kött af heimili í miðborg Reykjavíkur, sem fer út að villd. Þegar málið var kannað kom í ljós að eigandi hans hafði farið með hann til dýralæknis oftar en einu sinni á síðasta ári m.a. vegna kláða og annarra einkenna. Kötturinn fékk meðhöndlun gegn flóm þar sem þetta var á þeim tíma sem fuglaflærnar eru á kreiki. Í ljósi greiningarinnar nú er talið að líklegt að hann hafi verið með flær um töluverðan tíma. Af þessu má sjá hversu erfitt getur reynst að finna flærnar og losna við þær.

Þetta tilfelli gefur til kynna að hugsanlega sé kattaflóin orðin útbreidd meðal katta, og ef til vill hunda, sem eru í einhverjum tengslum við aðra ketti eða hunda. Til að kanna útbreiðsluna hefur Matvælastofnun nú beint þeim tilmælum til dýralækna að þeir taki sýni af öllum köttum og hundum á tímabilinu frá 14. – 28. mars, sem komið er með til þeirra og eru með einkenni í húð. Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum mun taka við sýnunum og kanna hvort í þeim leynast kattaflær.

Matvælastofnun telur mögulegt að útrýma kattaflónni en til þess þarf samstillt átak katta- og hundaeigenda, en þessi tegund flóa lifir jafnt á hundum sem köttum. Mikilvægt er að eigendur séu vel á verði fyrir einkennum. Þau eru m.a. að dýrin klóra sér, sleikja eða bíta meira í húðina en venjulega. Flærnar eru sýnilegar með berum augum en eru fljótar að skjótast í skjól og því stundum erfitt að finna þær. Oft er auðveldara að sjá flóaskítinn. Ráð er að setja hvítt klæði undir dýrið og kemba því með flóakambi og fylgjast með hvort svört korn falla úr felldinum eða jafnvel flærnar sjálfar. 

Hafa skal samband við dýralækni ef grunur um flær vaknar og fá meðhöndlun fyrir dýrið. – Mikilvægt er að athuga að lyf sem duga á flær fást ekki í gæludýraverslunum og mjög brýnt er að fylgja leiðbeiningum dýralækna um meðhöndlun, þar sem hættulegt er að nota lyf í of stórum skömmtum. Samhliða meðhöndlun á dýrunum þarf að þvo a.m.k. vikulega allt sem hægt er að þvo í umhverfi þeirra innandyra og ryksuga daglega. Kattaflóin, sem og egg og lirfur hennar, þola ekki viðvarandi lágt hitastig (<3°C) og því er ráð að setja mottur og húsgögn, sem ekki er hægt að þvo, út í nokkra daga þegar hitastig er um eða neðan við frostmark.

Almennt er meiri hætta á dreifingu ýmis konar smitefna þar sem mörg dýr koma saman og er því mikilvægt að viðhafa sérstaka smitgát við slíkar aðstæður. Matvælastofnun hefur skrifað leiðbeiningar hvað þetta varðar fyrir aðstandendur hunda- og kattasýninga, starfsfólk og þátttakendur.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?