Fækkun fuglainflúensugreininga
Tilkynningum um dauða fugla og spendýr hefur fækkað mikið undanfarna daga og öll sýni sem rannsökuð hafa verið síðustu tvær vikur hafa verið neikvæð. Í ljósi þessa álítur Matvælastofnun að dregið hafi verulega úr smithættu.
Fólk er samt beðið um að vera áfram á verði og tilkynna stofnuninni um veika og dauða villta fugla og spendýr. Leita skal til dýralækna varðandi veikindi í gæludýrum og búfé, sem hafa samband við Matvælastofnun ef þeir telja ástæðu til að rannsaka dýrin m.t.t. fuglainflúensu.
Undanfarnar vikur hefur Matvælastofnun ráðlagt gæludýraeigendum að reyna að koma í veg fyrir að dýrin þeirra séu í snertingu við villta fugla. Þetta eru þó aðeins ráðleggingar og gæludýraeigendum í sjálfsvald sett hvort þeir leyfi köttum og hundum að vera frjálsum. Eins og áður segir virðist smitálag hafa minnkað og geta gæludýraeigendur endurmetið ákvörðun sína í ljósi þess.
Allar inflúensuveirur sem greinst hafa hér á landi á þessu og síðasta ári, bæði í fuglum og spendýrum, eru af gerðinni H5N5. Þetta afbrigði hefur aðallega fundist á norðlægum slóðum. Nú líður að því að farfuglar fari að snúa aftur til landsins og ákveðin hætta er á að þeir beri með sér ný afbrigði af inflúensuveirum. Langflestir farfuglarnir okkar hafa vetrarstöðvar á meginlandi Evrópu og á Bretlandseyjum eða eiga viðkomu þar á leið sinni til landsins. Algengasta afbrigði fuglainflúensuveirunnar í Evrópu um þessar mundir er H5N1 og hefur það greinst í mörgum tegundum villtra fugla, alifugla og villtra spendýra. Ekki er því ólíklegt að það berist hingað til lands á næstu mánuðum. Tekið skal fram að það er óskylt H5N1 afbrigðinu sem greinst hefur í mjólkurkúm í Bandaríkjunum. Mjög fáir fuglar koma til Íslands frá Norður-Ameríku á vormánuðum og telur Matvælastofnun því litlar líkur á að fuglainflúensuveirur berist þaðan, þótt ekki sé hægt að útiloka það.
Sjá má tilkynningar, sýnatökur og niðurstöður rannsókna á mælaborði um fuglainflúensu á heimasíðu Matvælastofnunar.
Að lokum er minnt á að tilkynna skal um veik eða dauð villt spendýr og fugla til Matvælastofnunar með því að smella á hnappinn „ábendingar og fyrirspurnir“ efst á heimasíðu stofnunarinnar (www.mast.is). Mikilvægt er að tilkynningunni fylgi nákvæmar upplýsingar um staðsetningu og best er að skrá hnit staðarins. Nauðsynlegt er að taka fram um hvaða fugla- eða dýrategund er að ræða og/eða láta mynd fylgja með tilkynningunni.