Evrópuþing ályktar um einræktun dýra til manneldis
Frétt -
05.09.2008
Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Evrópuþingmenn hafa samþykkt tillögu þess efnis að bann verði sett við klónun dýra til manneldis. Tillagan var samþykkt með 622 atkvæðum gegn 32, en 25 sátu hjá. Þingmennirnir lögðu einnig til að innflutningur á einræktuðum dýrum og afkvæmum og afurðum þeirra verði bannaður og hefur þingið kallað eftir drögum frá Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um bann þess efnis.
![]() |
Há dánartíðni
einræktaðra dýra var meðal helstu áhyggjuefna og voru nýleg álit þess
efnis frá Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA), siðanefnd
Evrópusambandsins (EGE) og fleiri evrópskum sérfræðingum höfð til
hliðsjónar. Vitnað var í reglugerð 98/58/EC um verndun á búfé sem
bannar aðferðir sem geti valdið viðkomandi dýrum þjáningum eða
líkamstjóni og bent á að einræktun geti skaðað ímynd evrópskrar
landbúnaðarstefnu sem byggir á umhverfisvænni hágæðaframleiðslu þar sem
dýravelferð og heilbrigði eru í fyrirrúmi. Jafnframt höfðu þingmenn
áhyggjur að einræktun myndi skerða líffræðilega fjölbreytni búfjár og
gera það að verkum að sjúkdómar gætu lagst á heila hjörð á sama tíma,
með gríðarlegum afföllum. |
Sem stendur eru engar afurðir unnar úr einræktuðum dýrum til sölu í Evrópu eða annars staðar í heiminum. Sérfræðingar telja að slíkar vörur gætu komið á markað árið 2010.
Hægt er að nálgast fréttatilkynninguna hér.
Frétt um álit Matvælaöryggisstofnun Evrópu má nálgast hér.