Fara í efni

Er í lagi að borða hrátt kjöt?

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Að gefnu tilefni vill Matvælastofnun vara við neyslu á hráu kjöti nema því sé ætlað að vera neytt án hitameðhöndlunar. Líkurnar á iðrasýkingum margfaldast við neyslu á hráu kjöti og það á líka við um kjöt á Íslandi þrátt fyrir mjög lága tíðni á sjúkdómsvaldandi örverum. Meiri hætta er af kjúklinga- og svínakjöti en af lamba-, hrossa- eða nautakjöti og er meiri hætta af hökkuðu kjöti en heilum vöðvum.

Hefð er fyrir því að hitameðhöndla kjöt og ekki að ástæðulausu. Ýmsar sjúkdómsvaldandi örverur og sníkjudýr geta fundist í kjötvörum og valdið iðrasýkingum í fólki. Má þar nefna kampýlóbakter, salmonellu, listeríu, E. coli, Clostridium, Bacillus cereus, Staphylococcus aureus, Toxoplasma o.fl. Tíðni þessara örvera er lág á Íslandi borið saman við þau lönd sem við berum okkur saman við. Kampýlóbakter er langalgengasta orsök matarsýkinga í Evrópu og sem dæmi greindist kampýlóbakter í einungis 2,2% af kjúklingahópum við slátrun hér á landi á árinu 2015 á meðan tíðnin í kjúklingahópum var tæplega 20% í Danmörku og 67% í Bretlandi sama ár. Þrátt fyrir lága tíðni þá geta þessar sjúkdómsvaldandi örverur ávallt verið til staðar og margfaldast líkurnar á iðrasýkingu ef kjötið er ekki hitameðhöndlað fyrir neyslu.

Hrátt kjöt ekki sama og hrátt kjöt

Vakin er athygli á að kjöt sem ætlað er til neyslu hrátt er meðhöndlað á annan hátt en hrátt kjöt sem ætlað er til eldunar. Jafnframt er meiri hætta af kjúklinga- og svínakjöti, sem ráðlagt er að steikja ávallt í gegn, en af lamba-, hrossa- eða nautakjöti. Sömuleiðis er meiri hætta af hráu hökkuðu kjöti en af heilum vöðvum þar sem gerlar í heilum vöðvum eru yfirleitt bundnir við yfirborð vöðvans á meðan þeir geta leynst jafnt innan í hakki sem utan. Því er ekki ráðlegt að léttsteikja hamborgara þannig að aðeins yfirborð hans sé steikt en innihaldið allt hrátt, ólíkt því sem haldið var fram í heimildarmyndinni „Á ég að borða kjöt?“ sem sýnd var á mánudagskvöld. Neysla hrárra hamborgara eykur til muna líkurnar á iðrasýkingum á meðan neysla á heilum vöðvum af lamba-, hrossa- eða nautakjöti t.d. „medium rare“ er ekki eins varasöm. Á slíkum kjötstykkjum eru bakteríur fyrst og fremst á yfirborði og drepast því fljótt við eldun þó kjötið sé ekki alltaf gegnsteikt.

Krossmengun

Auk þess að huga að eldunarmáta þarf að forðast krossmengun. Mjög mikilvægt er að kjötsafi/blóð úr hráu kjöti berist ekki á kjöt sem búið er að steikja. Þess vegna þarf að nota annað fat, ílát eða bretti fyrir eldað kjöt en notað var fyrir hráa kjötið. Það þarf líka að nota aðra töng og önnur áhöld en notuð voru á hráa kjötið. Á sama hátt þarf að tryggja að kjötsafi/blóð af hráu kjöti berist ekki í meðlæti. Bakteríur t.d. kampýlóbakter berast með höndum, áhöldum og ílátum og það eitt að þvo sér ekki um hendur getur dugað til að sýkjast!

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?