Fara í efni

Enn mikið um fuglaflensu í villtum fuglum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun berast enn margar tilkynningar um veika og dauða villta fugla. Skæð fuglaflensa hefur greinst í mörgum af þeim sýnum sem tekin hafa verið. Stofnunin telur nauðsynlegt að viðhalda enn um sinn þeim sóttvarnaráðstöfunum sem í gildi eru.

Á þessu ári hefur Matvælastofnun fengið hátt í fjögur hundruð ábendingar um dauða og veika fugla. Starfsmenn stofnunarinnar fara yfir allar ábendingar og meta hvort taka skuli sýni eða ekki. Matið byggist m.a. á því um hvaða fuglategund er að ræða og hvar fuglinn finnst. Ekki er hægt að taka sýni úr öllum fuglum sem finnast en mikilvægt er samt fyrir Matvælastofnun að fá tilkynningar. Sýni hafa hingað til verið tekin úr um 70 fuglum. Upplýsingar um sýnin og niðurstöður rannsókna á þeim má sjá í kortasjá MAST

Niðurstöður endanlegra rannsókna Tilraunastöðvar HÍ að Keldum á sýnum sem fuglaflensuveirur hafa greinst í, hafa leitt í ljós að í öllum tilfellum er um að ræða meinvirkt afbrigði fuglaflensuveiru af gerðinni H5N1.

Í ljósi stöðunnar telur Matvælastofnun ekki tímabært að aflétta þeim varnaraðgerðum sem settar voru með auglýsingu ráðherra í lok mars. Enn er því öllum þeim sem halda alifugla og aðra fugla m.a. skylt að hafa fuglana inni í húsum eða yfirbyggðum gerðum og tryggja góðan aðskilnað milli alifugla og villtra fugla. Grunsamleg veikindi eða óeðlileg dauðsföll í alifuglum og öðrum fuglum í haldi skal tilkynna án tafar til Matvælastofnunar.

Eins og áður hvetur Matvælastofnun fólk til að tilkynna um dauða villta fugla. Það er best að gera með því að skrá ábendingu á heimasíðu stofnunarinnar en líka er hægt að hringja í síma 5304800 á opnunartíma eða senda tölvupóst á netfangið mast@mast.is. Um veika villta fugla skal tilkynna til viðkomandi sveitarfélags, sem er skylt að sjá til þess að fuglinum sé komið til hjálpar eða hann aflífaður á mannúðlegan hátt, samkvæmt lögum um velferð dýra. Fyrir utan opnunartíma sveitarfélaga er hægt að hafa samband við lögreglu.


Getum við bætt efni síðunnar?