Fara í efni

Vöktun á sýklalyfjaónæmi 2019

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Vöktun Matvælastofnunar á sýklalyfjaónæmi árið 2019 sýnir að sýklalyfjaónæmar bakteríur finnast í íslensku búfé og afurðum þeirra, sem og í íslenskri náttúru. Skýrsla um niðurstöður vöktunarinnar hefur verið birt á vef stofnunarinnar. 

Vöktunin náði til rúmlega 1200 sýna úr sýnatökum Matvælastofnunar, heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og Umhverfisstofnunar. Sýni voru tekin úr svínum, alifuglum, lömbum, innlendu og erlendu svína-, nautgripa- og alifuglakjöti, bæði á markaði og í afurðastöðvum. Að auki var skimað fyrir tilteknum ónæmum bakteríum í yfirborðsvatni víðsvegar um landið.  

Skipta má vöktuninni í tvennt: 

  1. Skimun á sýklalyfjaónæmi í dýrum, búfjárafurðum og umhverfi 
  2. Prófun á ónæmi í sjúkdómsvaldandi örverum í búfé og búfjárafurðum 

Skimun á sýklalyfjaónæmi 

Við skimun á botnlangasýnum frá lömbum og svínum fundust sértækar lyfjaónæmar bakteríur (ESBL/AmpC myndandi E. coli) hjá 10,9 % lamba og 12,7% svína. Þetta er töluverð aukning frá árinu áður. Aftur á móti fundust bakteríur af þessari gerð ekki í botnlangasýnum kjúklinga á þessu ári. ESBL/AmpC myndandi E. coli bakteríur geta yfirfært ónæmisgen og eiginleika þeirra í aðrar bakteríur, þ.m.t. sjúkdómsvaldandi bakteríur, einkum ef genin eru í plasmíðum bakteríanna. Allir stofnarnir frá lömbum og langflestir frá svínum voru með litningaborin AmpC gen og því eru mun minni líkur á láréttri dreifingu á þessum genum milli baktería.  

Annað árið í röð fundust ekki ESBL/AmpC myndandi E. coli í svínakjöti á markaði, en þær bakteríur var að finna í 2,6% sýna af kjúklingakjöti, bæði innlendu (1% innlendra sýna) og erlendu (14,8% erlendra sýna). Ekki var skimað fyrir ESBL/AmpC myndandi E. coli í afurðum sauðfjár en eitt sýni af nautgripakjöti reyndist jákvætt (0,7%) og var það af erlendum uppruna. 

Skimun fyrir ESBL/AmpC myndandi E. coli í yfirborðsvatni var framkvæmd í fyrsta sinn á árinu 2019. Tekin voru vatnssýni af 11 stöðum víðsvegar um landið. Stór hluti þeirra, eða 60%, voru jákvæð og er það mun hærra hlutfall en finnst í dýrum og dýraafurðum. Þessar niðurstöður gefa vísbendingu um að sýklalyfjaónæmar bakteríur eru nokkuð útbreiddar í umhverfi hér á landi.  

Næmisprófanir á E. coli bendibakteríum gefa vísbendingu um algengi lyfjaónæmra baktería í viðkomandi dýrategund. Árið 2019 voru 14 E. coli bendibakteríu stofnar frá svínum næmisprófaðir og reyndust fimm þeirra (35,7%) ónæmir fyrir einu eða fleiri sýklalyfjum, þar af þrír fjölónæmir. Hér er um fáa stofna að ræða og því eru hlutfallstölur vart marktækar. Í fyrsta skipti voru næmispróf gerð á E. coli bendibakteríustofnum frá lömbum. Af 177 stofnum voru 14 (7,9%) ónæmir fyrir einu eða fleiri sýklalyfjum, þar af tveir fjölónæmir. Það staðfestir að lyfjaónæmar bakteríur er að finna í lömbum en bendir þó til lægri tíðni en fundist hefur í svínum og kjúklingum síðustu ár. 

Ónæmi í sjúkdómsvaldandi örverum 

Árið 2019 voru 11 salmonellustofnar, sem greinst höfðu á svínaskrokkum við slátrun og kjöti á markaði, prófaðir m.t.t. næmis fyrir helstu sýklalyfjum. Sjö stofnar reyndust lyfjaónæmir, þar af fimm fjölónæmir (ónæmi fyrir 3-4 sýklalyfjaflokkum). Hér er um fáa stofna að ræða og því eru hlutfallstölur vart marktækar. 

Aukin vöktun 

Þar sem kerfisbundin vöktun á sýklalyfjaónæmi er skammt á veg komin hér á landi er ekki tímabært að draga víðtækar ályktanir um tíðnina í mismunandi búfjártegundum og afurðum þeirra. Gagnaöflun yfir lengri tíma er nauðsynleg til þess að meta tíðni og þróun sýklalyfjaónæmra baktería í dýrum, dýraafurðum og umhverfi. 

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?