Fara í efni

Ekki talin hætta á díoxín menguðu svínakjöti hérlendis

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Írsk yfirvöld innkölluðu á laugardag allt svínakjöt eftir að í ljós kom að magn díoxíns í svínakjöti var langt yfir leyfilegum mörkum. Samkvæmt upplýsingum Matvælastofnunar hefur ekkert svínakjöt verið flutt inn frá Írlandi síðan 1. september, hvorki beint eða í gegnum önnur lönd, utan 24 kílóa af matreiddu beikoni.

Írskt svínakjöt hefur verið innkallað úr verslunum um alla Evrópu í kjölfar þess að díoxín og díoxínlík PCB efni greindust um 100 fallt yfir leyfilegum hámarksgildum í sýnum af svínakjöti. Um er að ræða kjöt af svínum sem slátrað var eftir 1. september 2008 og virðist mengunin hafa átt sér stað á 47 svínabúum þar í landi. Talið er að mengunin hafi komið úr fóðri og er unnið að því að rekja uppruna þess.

Starfsmenn Matvælastofnunar, sem sinna eftirliti vegna innfluttra matvæla, fylgjast grannt með málinu. Svo virðist sem ekkert hafi verið flutt til Íslands af írsku svínakjöti utan 24 kílóa af matreiddu beikoni, en það er mjög líklega framleitt fyrir 1.september sl. Jafnframt hefur ekkert svínakjöt
sem á uppruna að rekja til Írlands verið flutt til landsins frá öðrum Evrópulöndum samkvæmt upplýsingum Matvælastofnunar. Ekki er talin hætta á að mengað kjöt hafi borist til landsins en beðið er endanlegrar staðfestingar.

Verið er að skoða allar mögulegar leiðir til flutnings svínakjöts til landsins með það að markmiði að tryggja heilnæmi svínakjöts og afurða hér á markaði.


Díoxín og díoxínlík PCB efni (polychlorinated biphenyl) verða til sem aukaafurð við ýmsa framleiðslu sem notar klór, orkuvinnslu úr kolum og olíu, sorpbruna og málmiðnað. Einnig myndast þau í náttúrunni t.d. við eldgos og skógarbruna. Þau brotna mjög hægt niður og finnast víða í umhverfinu og í litlu magni í ýmsum matvælum s.s. fiski, kjöti og mjólkurvörum.

Díoxín og díoxínlík PCB efni eru krabbameinsvaldandi, en valda ekki bráðum eiturverkunum nema í mjög stórum skömtum. Evrópusambandið hefur sett reglugerð um leyfileg hámarksgildi í matvælum og fóðri og gilda sömu reglur hér á landi. Óheimilt er að dreifa matvælum með magn díoxína og díoxínlíkra PCB efna yfir hámarksgildum skv. reglugerðum.

 

Frekari upplýsingar




Getum við bætt efni síðunnar?