Fara í efni

Ekkert íslenskt sýni yfir hámarksgildum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Þegar Matvælastofnun tók til starfa 1.janúar 2008 tók hún um leið við verkefnum matvælasviðs Umhverfisstofnunar. Meðal þeirra er eftirlit með varnarefnum í ávöxtum og grænmeti. Skýrsla þessi er unnin úr niðurstöðum eftirlits ársins 2007.

Árið 2007 voru tekin 304 sýni af ávöxtum og grænmeti. Flest sýnin komu frá Spáni og Hollandi auk íslenskra sýna. Af sýnunum 304 greindust 170 (55,9%) án varnarefna, 122 (40,1%) með varnarefni við eða undir hámarksgildum og 10 (3,3%) sýnanna með leifar af varnarefnum yfir hámarksgildum. 

Af þessum 304 sýnum voru 79 sýni íslensk og öll úr grænmeti. Í 73 sýnum (92%) greindust engin varnarefni en í 6 sýnum (8%) greindust varnarefni undir hámarksgildum. Ekkert íslenskt sýni mældist yfir hámarksgildum. Þetta er þriðja árið í röð sem ekkert sýni af íslensku grænmeti innihélt varnarefnaleifar yfir leyfðum hámarksgildum.

Af niðurstöðum eftirlitsins má vera ljóst að ástand ávaxta og grænmetis á markaði hérlendis er gott og er full ástæða til að taka undir ráðleggingar um aukna neyslu ávaxta og grænmetis, og þá ekki síst íslensks grænmetis. Það er þó mikilvægt að sofna ekki á verðinum og mun Matvælastofnun áfram kappkosta að hafa öflugt eftirlit með þessum vörum samhliða aukinni neyslu, en um leið eru framleiðendur og innflytjendur hvattir til að hafa ávallt vörur á boðstólum sem uppfylla þau skilyrði sem sett hafa verið.

Mikilvægt er að hafa í huga að leifar varnarefna sem finnast í ávöxtum og grænmeti eru að mestum hluta í ysta lagi þ.e. hýði eða berki. Það er því góð regla að skola ávexti og grænmeti vel fyrir neyslu, jafnvel bursta eða fjarlægja ysta lag, þar sem við á.

Hægt er að nálgast skýrsluna um eftirlit með varnarefnaleifum í ávöxtum og grænmeti 2007 hér.Getum við bætt efni síðunnar?