Fara í efni

Eftirlit með áburði 2020

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun hefur birt skýrslu um niðurstöður eftirlits með áburði fyrir árið 2020. Á árinu fluttu 24 fyrirtæki inn 302 tegundir af áburði og jarðvegsbætandi efnum, alls 54.197 tonn. Innlendir framleiðendur eru 15 á skrá, það eru fyrirtæki sem framleiða áburð eða jarðvegsbætandi efni á landinu. Áburðarfyrirtæki sem voru með skráða starfsemi á árinu eru því 39.

Niðurstöður eftirlits með áburði 2020

Sýnataka og vöruskoðun var gerð hjá 5 innflutningsfyrirtækjum og voru alls 50 áburðarsýni af 50 áburðartegundum tekin á árinu. Auk þess voru merkingar og umbúðir skoðaðar.

Við efnamælingar kom í ljós að 5 áburðartegundir voru með efnainnihald undir vikmörkum samkvæmt ákvæðum reglugerða. Þrjár voru með of lítið köfnunarefni, engin með of lítinn fosfór, engin með of lítið kalí, engin með of lítið kalsíum, ein með of lítinn brennistein, engin með of lítið magnesíum og ein með of lítinn bór. Þessar 5 tegundir hafa verið teknar af skrá Matvælastofnunar. Þessum áburðartegundum má ekki dreifa til notenda fyrr en Matvælastofnun er búin að taka sýni af þeim og láta efnagreina og niðurstöður þeirra sýni að áburðurinn stenst kröfur. Allar niðurstöður miðast við uppgefin gildi við skráningu og samkvæmt merkingum á umbúðum.

Kadmíum (Cd) var mælt í öllum áburðartegundum sem innihalda fosfór. Efnið var oftast undir mælanlegum mörkum og alltaf undir leyfðu hámarki sem er 50 mg/kg P.

Fáar athugasemdir voru gerðar við merkingar, en helstu gallar voru vegna misræmis milli skráninga og merkinga. Einnig voru merkingar máðar í nokkrum tilfellum. Þá voru gerðar athugasemdir ef merkingar voru ekki á Íslensku.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?