Fara í efni

Eftirlit með salti og eftirfylgni

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
  Salt sem hér er á markaði er ekki háð takmörkunum við innflutning, heldur eru vörurnar í frjálsu flæði á Evrópska efnahafssvæðinu og eru því undir eftirliti í framleiðslulandinu og markaðseftirliti þar sem varan er notuð. Iðnaðarsalt er því ekki ólögleg vara, sem er háð takmörkunum við flutning til landsins, heldur er vandamálið hvernig það hefur verið markaðssett fyrir matvælaiðnað. Það er ekki ásættanlegt að salt sem notað er í matvælaiðnaði sé ekki sérstaklega framleitt til þeirrar notkunar, því slíkt salt er háð strangara eftirliti. Ábyrgðin hvílir á þeim aðila sem flytur saltið til landsins og setur það á markað, hjá fyrirtækjum sem kaupa og nota vöruna án athugasemda og eftirlitsaðilum sem ekki hafa áttað sig á dreifingu hennar til matvælaiðnaðar.

Framleiðslu- og markaðseftirlit

Matvælaframleiðsla hér á landi er ýmist undir eftirliti heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga eða Matvælastofnunar. Stofnunin hefur eftirlit með sláturhúsum og einnig kjötvinnslum frá árinu 2010. Þá fluttist eftirlit með kjötvinnslum frá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga til Matvælastofnunar. Það var við framkvæmd þessa eftirlits í kjötvinnslu sem Matvælastofnun varð vör við notkun á iðnaðarsalti sem ekki var framleitt fyrir matvælavinnslu. Á árinu 2011 tók Matvælastofnun síðan alfarið yfir eftirlit með framleiðslu sjávarafurða, sem áður var framkvæmt af sjálfstætt starfandi skoðunarstofum, undir eftirliti stofnunarinnar. Annað eftirlit er hjá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga. Verkaskiptingin er í grófum dráttum þannig að Matvælastofnun sér um eftirlit með framleiðslu dýraafurða en heilbrigðiseftirlitið annast eftirlit með annarri matvælaframleiðslu og dreifingu vöru á markað.

Innflutningseftirlit

Eftirlit með innflutningi matvæla beinist fyrst og fremst að dýraafurðum frá ríkjum utan EES. Innflutningur á kjöti og fiski eru dæmi um vörur sem háðar eru slíku eftirliti af hálfu Matvælastofnunar í landamærastöðvum sem stofnunin rekur. Innflutningur á kjöti og eggjum frá EES-ríkjum er einnig háður takmörkunum og það sama gildir um tilteknar matjurtir. Skýrar reglur hafa verið settar um innflutningseftirlit með þessum vörum, en flest önnur matvæli eru háð markaðseftirliti eftir að vörurnar berast til landsins. Þannig hefur Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur eftirlit með Ölgerðinni sem markaðssetti iðnaðarsalt til matvælaframleiðslu.

Innra eftirlit

Matvælafyrirtæki eiga að starfrækja innra eftirlit og er það skilyrði fyrir starfsleyfisveitingu. Einn af grunnþáttum þess er móttökueftirlit, þ.e. skoðun hráefna, annarra innihaldsefna, umbúða og allra þátta sem geta haft áhrif á öryggi matvæla. Eigið eftirlit fyrirtækjanna felst í að kanna hollustuhætti, efnasamsetningu, hitastig í hráefnum og þá um leið merkingar á vörum sem notaðar eru í framleiðslu. Í innra eftirliti er jafnframt gerð krafa um skráningu eftirlitsniðurstaðna, sem eiga síðan að vera aðgengilegar fyrir opinbera eftirlitsaðila. Matvælastofnun hefur beint því til sinna eftirlitsmanna að kanna sérstaklega notkun á salti hjá þeim matvælafyrirtækjum sem eru undir eftirliti stofnunarinnar.

Átaksverkefni

Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga hafa samstarf um matvælaeftirlit og ráðgera samræmt eftirlitsverkefni á árinu 2012 til að kanna innra eftirlit fyrirtækja. Að gefnu tilefni hefur Matvælastofnun þegar rætt um að í þessu verkefni verði kannað hvernig matvælafyrirtæki sinna móttökueftirliti til að tryggja að öll aðföng séu ætluð til vinnslu og pökkunar á matvælum og standist kröfur um hollustuhætti. Stofnunin hefur einnig rætt við Samtök iðnaðarins og mun ræða við önnur hagsmunasamtök matvælafyrirtækja til að koma af stað átaki í matvælaiðnaði og hjá dreifingaraðilum, sem felist í að tryggja með eigin eftirliti að skilyrði matvælalöggjafar sé uppfyllt. Þannig taka fyrirtækin ábyrgð á öryggi eigin vöru eins og þeim ber samkvæmt matvælalögum. Niðurstöður átaksverkefnis opinberra eftirlits aðila verða síðan gerðar opinberar eins og tíðkast með samræmd eftirlitsverkefni þeirra.


Ítarefni
Getum við bætt efni síðunnar?