Fara í efni

Eftirlit með bændum út frá áhættu og frammistöðu

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun hefur tekið í notkun áhættu- og frammistöðuflokkunarkerfi til að ákvarða tíðni eftirlits með frumframleiðslu og öðru dýrahaldi. Eftirlit með starfsemi á þessu sviði er frá byrjun janúar skipulagt út frá tíðni sem byggist á áhættuflokkuninni en að þremur árum liðnum mun frammistöðuflokkunin taka gildi.

Á undanförnum árum hefur staðið yfir innleiðing á áhættu- og frammistöðuflokkunarkerfi fyrir matvæla- og fóðurfyrirtæki sem Matvælastofnun hefur eftirlit með, en nú bætist dýrahald og matvælaframleiðsla bænda við. Með kerfinu er þunga eftirlitsins beint þangað sem áhættan er mest og frammistaðan verst. 

Frammistaða eftirlitsþega skiptist í þrjá flokka og falla fyrirtæki ýmist í flokk A, B eða C. Farið verður sjaldnar í eftirlit til þeirra sem standa sig vel og eftirlitsgjöld sem þeir greiða verða af þeim sökum lægri. Fyrirkomulag innheimtu eftirlitsgjalda breytist jafnframt þannig að innheimt verður fyrir þann tíma sem eftirlitið tekur, en til þessa hefur verið fast gjald eftir tegund starfsemi.

Eftirlitskerfið tekur til þeirra sem halda nautgripi, sauðfé, geitfé, hross, svín, alifugla og loðdýr, og falla undir eftirlit Matvælastofnunar. Kerfið tekur ekki enn til fiskeldis, skeldýraræktar, fiskveiða og ræktunar matjurta en mun gera það síðar. Áætlað er að áhættuflokkun fyrir fiskeldi verði gefin út á þessu ári. Áhættu- og frammistöðuflokkunarkerfið mun verða í sífelldri endurskoðun. Þegar kerfið hefur verið samræmt að fullu gefst kostur á að birta opinberlega upplýsingar um frammistöðu.

Samkvæmt löggjöf er skylt að haga tíðni opinbers eftirlits með dýravelferð og matvælaöryggi eftir áhættu. Því hefur við áhættuflokkunina annars vegar verið tekið mið af dýravelferð og hins vegar matvælaöryggi. Grunneftirlitstíðni fyrir reglulegt eftirlit miðast við þann áhættuflokk sem starfsemin fellur undir. Aðrir þættir s.s. eftirfylgni, sýnatökur og ábendingar hafa áhrif á heildartíðni og tímalengd eftirlitsins.

Áhættu- og frammistöðuflokkunin var kynnt fyrir hagsmunaaðilum á opnum fundi Matvælastofnunar 2. nóvember sl. og send til umsagnar 5. desember sl. Fyrirkomulag og framkvæmd kerfisins eru útlistuð í ítarefni hér að neðan.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?