Fara í efni

Eftirlit með áburði og kadmíum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Nýja árið hófst m.a. með fjölmiðlaumfjöllun um of hátt magn kadmíums í áburði sem dreift var á tún hérlendis. Ýmsar rangfærslur hófust á loft í umræðunni s.s. tal um „geislavirkan áburð“ í útvarpi o.fl. Hér verður fjallað um fyrirkomulag eftirlits með áburði á Íslandi og nýjar reglur sem heimila birtingu efnamælinga eins fljótt og kostur er, standist áburður ekki kröfur.

Um áburðareftirlit

Áburður er í frjálsu flæði innan EES-svæðisins. Því má ekki leggja hömlur á viðskipti með hann nema rökstuddur grunur sé um að hann standist ekki kröfur. Áburður fer því í dreifingu til kaupenda strax við komuna til landsins. Túnáburður og annar jarðræktaráburður kemur til landsins í apríl og fyrri hluta maí og líður því skammur tími uns hann er notaður.

Samkvæmt lögum hefur Matvælastofnun eftirlit með gæðum áburðar. Skylt er að skrá öll áburðarfyrirtæki sem og áburðartegundir hjá stofnuninni. Þannig hefur Matvælastofnun góðar upplýsingar um áburðarfyrirtækin og vörur þeirra.

  Innflutning á áburði ber að tilkynna til Matvæla-stofnunar, sem heldur skrá um innflutning og metur eftirlitsþörf. Samkvæmt lögum skal Matvælastofnun með sýnatöku fylgjast með að áburður sé í samræmi við gildandi vörulýsingar og merkingar á umbúðum séu í samræmi við reglur. Sýni eru send  strax í efnagreiningu, niðurstöður berast eftir 6 – 8 vikur. Þá þegar er unnið úr niðurstöðunum og kemur þá fyrst í ljós hvort áburðurinn stenst kröfur um efnainnihald. Oftast er áburðurinn kominn til notenda og jafnvel verið dreift á tún og akra.

Fyrirtækin eru upplýst bréflega um niðurstöður efnagreininga og tilgreint standist áburðartegundir ekki kröfur um efnainnihald. Sé um frávik að ræða er fyrirtækjunum tilkynnt að Matvælastofnun hyggist afskrá viðkomandi áburð. Fyrirtækin fá 10 virka daga til að andmæla og að leggja fram eigin gögn í málinu samkvæmt stjórnsýslulögum. Sé niðurstaðan sú að afskrá skuli áburð er fyrirtækinu tilkynnt það með formlegu bréfi og því jafnframt bent á kæruheimild til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. Við afskráningu áburðar leggur Matvælastofnun sölubann á hann og bannar dreifingu hans til notenda uns staðfest hefur verið með efnagreiningu að hann standist kröfur. Gripið er til þessarar aðgerðar við næsta innflutning áburðar.

Matvælastofnun hugðist birta á heimasíðu sinni niðurstöður áburðareftirlits ársins 2007 og gera það að meginreglu í framtíðinni. Þessi ætlan var kærð til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis sem gaf út úrskurð í febrúar 2008 um að ekki væri lagaheimild til slíkrar birtingar.

Við setningu nýrra matvælalaga 2009 var ráðherra heimilað að setja reglur um birtingu niðurstaðna áburðareftirlits. Í kjöfarið var sett reglugerð sem heimilaði birtingu niðurstaðna í ársskýrslu sem gefin yrði út fyrir lok hvers árs og birti stofnunin slíkar skýrslur fyrir árið 2010 og 2011.

Við eftirlit síðasta árs kom í ljós að allur fosfóráburður frá einu fyrirtæki innihélt meira af kadmíum en leyfilegt er samkvæmt íslenskum reglum. Þessi mörk eru lægri á Íslandi en víðast annars staðar, en íslenskur jarðvegur er talinn safna þessu efni hraðar í sig en aðrar jarðvegsgerðir. Flest Evrópuríki hafa engin efri mörk á þessu efni. Kadmíum er efni sem fylgir fosfóráburði og safnast fyrir í jarðvegi og getur valdið heilsuvanda sé kadmíumríkur fosfór notaður um árabil á sama land. Við áburðareftirlit undanfarinna ára hefur kadmíum örsjaldan mælst yfir leyfðum mörkum og aldrei í sama mæli og nú. Nokkur vandi var því á höndum hvernig fara ætti með þetta mál.

Hér er um einstakt tilvik að ræða sem ekki hafði bráða hættu í för með sér að mati sérfræðinga. Benda má á að skv. útreikningi héraðsráðunauts í jarðrækt þyrfti einstaklingur að borða 6 kg af korni á dag sem ræktað hefur verið með umræddum áburði til að fá í sig meiri kadmíum en ráðlagður dagsskammtur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar segir til um. Það samsvarar neyslu á 8 Cheerios pökkum á dag. Málið var metið þannig að ekki væri tilefni til innköllunar á áburðinum. Matvælastofnun hafði ekki lagaheimild til að tilkynna opinberlega um málið strax en birti niðurstöðurnar í ársskýrslu áburðareftirlits í lok árs skv. lögum. Eftir sem áður var hér um alvarlegt tilvik að ræða og miða aðgerðir að því að hindra innflutning á kadmíum-menguðum áburði og uppsöfnun á þungmálmum í jarðvegi á Íslandi.

Nú hefur verið gefin út ný reglugerð af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu sem veitir Matvælastofnun heimild til að birta niðurstöður áburðareftirlits eins fljótt og kostur er, standist áburður ekki kröfur.

Fræðslufundur

Matvælastofnun heldur fræðslufund um eftirlit með áburði í dag kl. 15:00 - 16:30 í umdæmisskrifstofu stofnunarinnar í Reykjavík að Stórhöfða 23. Hægt verður að fylgjast með fundinum í beinni útsendingu á vef Matvælastofnunar undir Útgáfa - Fræðslufundir
.


Ítarefni
Getum við bætt efni síðunnar?