Fara í efni

Eftirlit matvælastofnunar með merkingum búfjár

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Í Bændablaðinu, frá 14. maí 2008, var fjallað um bréf Matvælastofnunar (MAST) til bænda vegna eftirlits með merkingum búfjár. Rætt var við Jóhannes Sigfússon formann Landssamtaka sauðfjárbænda og Viktor S. Pálsson forstöðumann stjórnsýslusviðs MAST.

 


Í greininni kemur m.a. fram óánægja Jóhannesar Sigfússonar vegna bréfa stofnunarinnar til bænda og er haft eftir honum eftirfarandi: “ En að vera að agnúast út í og jafnvel hóta bændum kæru til sýslumanns, þótt það komi tvö eða þrjú lömb án eyrnamerkis, þykir mér fáránlegt. Það er í raun enginn vandi að koma þessu í gott lag með samvinnu við bændur, en að vera með svona hótanir hleypur bara illu blóði í menn. Þeir hjá Matvælastofnun hafa lagt til að setja tvö merki í hvert lamb, merki í hvort eyra. Það var ekki minnst á að slíkt myndi kosta bændur tugi milljóna á hverju ári. Ég hygg að menn fari í hart ef á að halda svona áfram “.  


Vegna umfjöllunar blaðsins um eftirlit stofnunarinnar með merkingum búfjár þykir rétt að upplýsa almennt um hvernig MAST fer með eftirlit með framkvæmd reglugerðar um merkingar búfjár.


Reglur um merkingar búfjár


Árið 2003 setti landbúnaðarráðuneytið reglugerð um merkingar búfjár. Frumkvæði að setningu reglugerðarinnar má m.a. rekja til Landssamtaka kúabænda. Nefndarvinnan sem fór fram við smíði reglugerðarinnar var ekki átakalaus og lentu fulltrúar í nefndinni sem voru skipaðir af Landbúnaðarráðuneyti, Bændasamtökum Íslands og yfirdýralækni oft á tíðum í rökræðum við hagsmunaaðila um hvernig haga ætti merkingum búfjár. Voru skiptar skoðanir um þessi atriði og alls ekki einhugur um þær reglur sem komu fram í fyrstu reglugerðinni sem sett var um merkingar búfjár. Má nefna í þessu samhengi að ákvæði í henni giltu ekki um sauðfé. Fór þó svo að þessu var breytt og skal nú allt sauðfé merkt sbr. núgildandi reglugerð nr. 289/2005 með síðari breytingum. Þrátt fyrir að nokkur ár séu liðin frá setningu reglugerðarinnar, þá skal því ekki haldið fram hér að fullkomin sátt ríki um hana.


Markmið reglugerðarinnar


Um tilgang reglugerðarinnar var m.a. fjallað í grein í Bændablaðinu sumarið 2006. Flestir eru væntanlega sammála því að matvæli skuli vera örugg og holl. Ekki er hins vegar víst að allir séu sammála um hvernig staðið skuli að framleiðslu matvæla svo þau megi verða örugg og holl. Lög og reglugerðir um aðbúnað dýra, framleiðslu matvæla, slátrun og vinnslu afurðanna svo fátt sé nefnt eru gefin út í þeim tilgangi að tryggja sem best þessi atriði. Gott væri ef markmiðinu væri þar með náð. Svo er víst ekki að margra álilti og er talið nauðsynlegt að hafa eftirlit með öllum stigum framleiðslunnar og tryggja rekjanleika í fæðukeðjunni frá frumframleiðslu og þar til varan er komin á borð neytenda.


Í fyrstu grein reglugerðarinnar um merkingar búfjár er markmið hennar skilgreint með svohljóðandi hætti: „... tryggja rekjanleika búfjárafurða frá upprunahjörð og/eða fæðingu viðkomandi dýrs til sölu afurða og skapa með því grundvöll að markvissu matvæla- og búfjáreftirliti, eftirliti með flutningum dýra, skráningu búfjársjúkdóma og meðhöndlun þeirra.” 

Með reglugerðinni hefur verið ákveðið að rekjanleiki dýra og afurða skapi grundvöll að eftirliti og skráningum. Þetta er í raun meginkjarni reglugerðar um merkingu búfjár og skýrir þá stefnu sem landbúnaðarráðuneytið hefur gefið út með setningu hennar.


Opinbert eftirlit


Reglugerðin var sett eftir að umsagna var leitað til hagsmunaðila og var yfirdýralækni, nú MAST, falið eftirlit með framkvæmd hennar. Stefna ráðuneytisins varðandi merkingar búfjár kemur fram í reglugerðinni eins og áður er nefnt og þar er MAST falið að framfylgja stefnu ráðuneytisins á þessu sviði.


Ávallt þegar um opinbert eftirlit er að ræða má búast við að um það rísi ágreiningur. Þeir sem verða fyrir eftirliti telja það oft á tíðum of mikið og of strangt eða eftir aðstæðum of lítið, ómarkvisst og ósamræmt. Hefur MAST bæði fengið gagnrýni frá hagsmunasamtökum bænda fyrir of lítið eftirlit með merkingum búfjár og nú fyrir að fara offari vegna eftirlits með merkingum sauðfjár. Auk álits Jóhannesar Sigfússonar hefur stofnuninni borist ályktun frá Landssamtökum sauðfjárbænda þar sem aðalfundur þeirra haldinn 10. – 11. apríl 2008 telur þetta vera tilfellið.


Í þessu samhengi ber að virða allar skoðanir. MAST ber að rækja allt eftirlit af sanngirni og að það sé samræmt um allt land. Rétt leið í þessum efnum getur þó verið vandfundin því eitt sýnist sumum og öðrum annað.


Samræming eftirlits


Ákveðið var árið 2006 að hefja samræmingu eftirlits með merkingum búfjár um land allt og hófst eftirlit með merkingum nautgripa frá og með sama ári. Aðgerðir og áherslur Landbúnaðarstofnunar og nú MAST í eftirliti með merkingum búfjár voru rækilega kynntar með grein í Bændablaðinu sumarið 2006. Í kjölfarið fylgdu auglýsingar og fleiri greinar í sama blaði. Einnig voru fundir og námskeið með ráðunautum, héraðsdýralæknum og sláturleyfishöfum, m.a. í Reykjavík og á Akureyri. Námskeiðin voru fyrir héraðsdýralækna og starfsfólk sláturhúsa en þau voru haldin í náinni samvinnu við Bændasamtök Íslands sem ásamt Landbúnaðarstofnun stóðu að fræðslu og leiðbeiningum á námskeiðunum enda fer tölvudeild samtakanna með stórt hlutverk samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar eins og margir þekkja.

Samræmdar eftirlitsaðgerðir MAST fólust fyrst og fremst í innsendingu tilkynninga úr sláturhúsum landsins þegar eftirlitsdýralæknar í samvinnu við sláturhúsin urðu varir við ómerkt eða rangt merkt búfé. Eins og áður segir var í fyrstu lögð áhersla á nautgripi en einnig á sauðfé. MAST hefur einnig ritað bréf í tvígang til allra sláturleyfishafa og kynnt þeim þeirra ábyrgð og afleiðingar meintra brota á reglugerð um merkingar búfjár.


Á s.l. tveimur haustfundum Bændasamtaka Íslands með búfjáreftirlitsmönnum hefur MAST sömuleiðis leitað eftir samvinnu við búfjáreftirlitsmenn og útbúið gögn fyrir búfjáreftirlitið í því samhengi. Hafa margir búfjáreftirlitsmenn í kjölfar þessa skilað inn tilkynningum um ómerkt búfé sem þeir verða varir við í eftirlitsferðum sínum.


Fer MAST offari?


Matvælastofnun telur að hún hafi farið gætilega af stað í eftirliti með merkingum búfjár. Þetta hafi verið gert í samvinnu við bændur og sláturhús með kynningum í Bændablaðinu og fundarhaldi og námskeiðum með sláturleyfishöfum eins og áður er komið inn á. Lögð hefur verið mikil áhersla á samræmingu svo eftirlitið sé sem líkast um land allt. Í þessu samhengi er vísað í fyrrnefnda grein í Bændablaðinu sumarið 2006 um áherslur í eftirliti stofnunarinnar.

Fjöldi tilkynninga um ómerkt eða rangt merkt búfé hefur borist stofnuninni (sjá töflu um fjölda tilkynninga, bréfa og gripa). Fjölmörg bréf vegna meintra brota hafa verið send bændum og margir bændur hafa hringt til stofnunarinnar vegna þessara bréfa, ritað henni bréf eða haft samband með öðrum hætti. Það er fullyrt hér að allir þeir sem leitað hafa til stofnunarinnar vegna meintra brota hafa fengið úrlausn sinna mála með farsælum hætti. Þannig hefur stofnunin sýnt sveigjanleika og skilning á útskýringum þeirra bænda sem haft hafa samband vegna ómerktra gripa.


Bændur sem ekki hafa samband eftir móttöku bréfs frá MAST fá engin frekari viðbrögð frá stofnuninni nema ef aftur verður vart við meint brot á reglugerðinni. Þá heldur stofnunin áfram með málið og getur það endað hjá viðkomandi lögreglustjóra með ósk um viðeigandi meðferð málsins ef ekkert heyrist frá umráðamanni búfjárins. Ávallt er bændum veittur andmælaréttur og frestur til útskýringa. Meint brot eru ekki send til lögreglustjóra til viðeigandi meðferðar nema full ástæða sé talin til og ef engar útskýringar hafa komið fram af hálfu umráðamanns búfjár.

Þetta er það úrræði sem MAST hefur metið minnst íþyngjandi, þegar tekið er tillit til ákvæða reglugerðarinnar. Það sem sumir bændur kalla hótun um sýslumann, lítur stofnunin þannig á sem nauðsynlega upplýsingaskyldu um hvaða ráðstafanir stofnunin muni grípa til við ítrekuð brot á reglugerðinni. Þrátt fyrir ofangreind rök MAST og með hliðsjón af ábendingum um að bréfin þyki harkalega orðuð og að í þeim felist hótanir, mun stofnunin fara yfir texta þeirra bréfa sem send eru bændum og íhuga hvort breytinga sé þörf.


Hvenær á MAST að gera athugasemdir?


Eitt af því sem formaður Landssamtaka sauðfjárbænda nefnir í umfjöllun Bændablaðsins er að hann telur það fáránlegt að gera athugasemdir þótt það komi tvö eða þrjú lömb ómerkt til slátrunar. Stofnunin getur fallist á að slík afföll af merkjum geti verið eðlileg, enda hefur hún gefið það út m.a. á fundum með sláturleyfishöfum og í símtölum við bændur að hún muni ekki gera athugasemdir ef 2–3 lömb úr stórum hópi koma ómerkt til slátrunar. Þetta hefur stofnunin hins vegar ekki náð að standa við og er það miður. Slík bréf hafa farið til bænda, en þar er um mistök að ræða, sem ber að afsaka og leiðrétta í frekari framkvæmd eftirlits.


Eftir sem áður er erfitt að ákveða þann fjölda gripa sem “má” vera ómerktur, en strangt til tekið er slíkt ekki heimilt samkvæmt reglugerðinni. Halda má því fram að senda ætti öllum bréf ef ómerktur gripur uppgötvast. Þá væri það umráðamanns búfjárins að koma með skýringar. Ekki má gleyma því að helsti tilgangur eftirlitsins (og bréfanna) er að ýta við mönnum og leita skýringa á því hvers vegna merki vanti. Í framhaldi af því má velta fyrir sér hvernig koma megi í veg fyrir að merki tapist. Er rétt töng notuð við ísetningu merkja? Er staðsetning merkja í eyra rétt? Flækja lömb merkin í netgirðingum? Getur önnur gerð merkja dregið úr þessu? Henta netgirðingar yfir höfuð þar sem lömb eru í heimahaga? Í þessu samhengi er bent á heimasíðu Matvælastofnunar, þar sem smellt er á leiðbeiningar vinstra megin á síðunni og aftur á einstaklingsmerkingar.

Hversu mikið er um ómerkt sauðfé?

Í neðangreindri töflu koma fram upplýsingar um fjölda tilkynninga sem stofnuninni hefur borist vegna ómerkts sauðfjár, fjölda sauðfjár sem tilkynnt er um, fjölda bréfa sem stofnunin hefur sent vegna tilkynninganna og fjölda sauðfjár sem gerð er athugasemd við. Þetta eru lágmarkstölur því í of mörgum tilfellum er fjöldi sauðfjár ekki gefinn upp í tilkynningum til MAST. 

 

Fjöldi tilkynninga og bréfa um sauðfé á tímabilinu haust 2006 – vor 2008.


 

Fjöldi til­kynninga

Fjöldi sauðfjár á tilkynningum

Fjöldi bréfa til sauðfjárbænda

Sauð­fé sem bréf varða

Fjöldi án merkja

Röng merk­ing

Annað

Sauðfé

824

21.543

593

13.182

8.452

4.230

500

Þar af lömb

 

 

 

 

5.219

3.119

494

Þar af annað

 

 

 

 

3.233

1.111

6


Af þessari töflu má sjá að fjöldi sauðfjár vegna innsendra tilkynninga er 21.543 og að MAST sendir að athuguðu máli ekki erindi nema vegna hluta þessa fjár. Endalaust má deila um hvort þessi mál varða margt fé, en víst er að það er fleira en hér kemur fram því oft á tíðum er fjöldi ekki gefinn upp í tilkynningum eins og áður er getið um. Hversu hátt hlutfall ómerkt lömb eru af heildarfjölda fæddra lamba er því erfitt að segja til um, en út frá ofangreindum tölum og án ábyrgðar má geta sér til um að ómerkt lömb sem koma til slátrunar séu sennilega á bilinu 0,5 – 2 % af heildarfjölda fæddra lamba á árinu. 


Framtíðin


Jóhannes nefnir í viðtalinu í Bændablaðinu að “Þeir hjá Matvælastofnun hafa lagt til að setja tvö merki í hvert lamb, merki í hvort eyra. Það var ekki minnst á að slíkt myndi kosta bændur tugi milljóna á hverju ári. Ég hygg að menn fari í hart ef á að halda svona áfram“.


Það fer eftir ýmsu hversu vel lambamerki tolla í eyra. Hvort merki rifni eða detti úr eyra skiptir einnig máli. Verði bóndi var við að merki dettur eða rifni úr, til hvaða ráða grípur hann þá? Kannar hann málið eða lítur á það sem eðlilegan hlut og sættir sig við að ákveðinn hluti merkjanna detti ávallt úr? Hversu hátt hlutfall er það? Getur hann þess að merkin detti úr eftir að lömbin eru komin úr hans ábyrgð á flutningabíl eða í sláturhúsi?


Samkvæmt reglugerð eru merkingar búfjár á ábyrgð umráðamanna þess. Flutnings­að­ilum er óheimilt að taka til flutnings ómerkta nautgripi, sauðfé/geitfé og svín. Sláturhúsum er óheimilt að taka til sölu og vinnslu búfé sem ekki uppfyllir ákvæði reglu­gerðarinnar um merkingar. Eftirlit með framkvæmd ákvæða reglugerðarinnar er í höndum MAST. Hér hljóta því allir að hafa sínar skyldur.


MAST hefur ekki lagt til formlega að lömb ætti að merkja með tveimur merkjum en því kann að hafa verið fleygt fram í umræðum um þessi mál af hálfu starfsmanna stofnunarinnar. Það er ekkert óeðlilegt við að slíkar hugmyndir komi fram í þeim tilgangi að tryggja rekjanleika, en þá er að sjálfsögðu nauðsynlegt að meta bæði ávinning og kostnað. Með yfirtöku á nýrri matvælalöggjöf ESB vegna breytinga á EES-samningnum, eins og lagt hefur verið til á Alþingi, má einnig gera ráð fyrir að reglur um merkingar búfjár breytist hér á landi. Ákvæði Evrópureglna verða þá aðlöguð íslenskum lögum og reglugerðum og mun MAST bera ábyrgð á því að kynna þær breytingar þegar til þess kemur.Getum við bætt efni síðunnar?