Fara í efni

Efnagreining á iðnaðarsalti - Engar vísbendingar um hættu

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

  Matvælastofnun (MAST) hefur aflað nýrra upplýsinga og farið enn frekar yfir gögn um framleiðslu, meðferð og samsetningu salts, sem notað var í matvælavinnslu hér á landi, en framleitt var sem iðnaðarsalt. Ekkert hefur komið fram sem bendir til hættu af notkun saltsins fyrir neytendur. Stofnunin stendur engu að síður fast við þá afstöðu sína að í matvæli eigi eingöngu að nota salt sem framleitt  er til matvælavinnslu.

MAST og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur tóku sýni af saltinu  til eigin efnagreiningar. Matís greindi sýnin og öll mæld aðskotaefni reyndust vel undir hámarksgildum skv. alþjóðlegum staðli fyrir matvælasalt. Frekari gögn frá framleiðanda sýna einnig að aðskotaefnin í saltinu voru vel undir hámarksgildum. Saltmagn þess er hátt sem þýðir að saltið er mjög hreint.
 
Umrætt salt er framleitt í lokuðu kerfi hjá Akzo Nobel í Danmörku og er á öllum stigum framleiðsluferils varið fyrir utanaðkomandi mengun. Það er flokkað með sigtun í iðnaðarsalt (hámarkskornastærð er 4 mm) og matarsalt (hámarkskornastærð 1,9 mm). Saltið er geymt í sílóum þar til því er pakkað. Fyrir pökkun er salt til matvælavinnslu sigtað að nýju en iðnaðarsaltinu er pakkað án frekari sigtunar. Saltið er geymt í húsnæði sem er þétt gagnvart vindi og regni.

Hráefni sem notað er til vinnslu á iðnaðarsalti er hið sama og notað er til framleiðslu á salti til matvælaframleiðslu. Báðar tegundir salts eru framleiddar samkvæmt sömu gæðastöðlum, en matvælasalt er auk þess meðhöndlað samkvæmt ISO 22000. Notkun ISO staðla er ekki lögboðin, en fyrirtæki geta valið að starfa eftir þeim og fá vottun samkvæmt því.

Notkun iðnaðarsaltsins hefur þegar verið hætt. Matvælastofnun hefur yfirfarið verklag eftirlitsmanna við eftirlit með salti og öðrum efnum sem ætluð eru til íblöndunar í matvæli. Einnig skal geta þess að stofnunin hefur unnið að samræmingu eftirlits undanfarna mánuði og það var einmitt í slíkri samræmingarskoðun sem verklag við eftirlit leiddi til þess að notkun iðnaðarsalts uppgötvaðist hjá kjötvinnslu.

Meðfylgjandi:

    Ítarlegri upplýsingar og niðurstöður mælinganna á aðskotaefnum í iðnaðarsalti frá Akzo Nobel


Getum við bætt efni síðunnar?