Dýralæknaþjónusta í dreifðum byggðum – samningar auglýstir
Matvælastofnun auglýsir eftir sjálfstætt starfandi dýralæknum til að taka að sér almenna dýralæknaþjónustu og bráðaþjónustu í dreifðum byggðum landsins í samræmi við reglugerð nr. 405/2020. Reglugerðinni er ætlað að tryggja dýraeigendum nauðsynlega almenna þjónustu og bráðaþjónustu við dýr á landssvæðum þar sem fjöldi dýra er takmarkaður og/eða verkefni dýralækna af skornum skammti.
Matvælastofnun er heimilt að gera þjónustusamninga við sjálfstætt starfandi dýralækna um að þeir sinni almennri dýralæknaþjónustu og bráðaþjónustu við dýr á tilgreindum þjónustusvæðum. Samningar verða gerðir til 5 ára og gilda frá og með 1.maí 2025. Þeir verða uppsegjanlegir eins og núverandi samningar auk þess sem í þeim verða endurskoðunarákvæði ef breytingar verða á laga- og reglugerðarákvæðum þeim sem samningur þessi byggir á og sem ekki samræmast ákvæðum hans. Matvælastofnun tryggir dýralæknum skv. samningnum mánaðarlega staðaruppbót fyrir að sinna dýralækna- og bráðaþjónustu á viðkomandi þjónustusvæði.
Dýralæknir sem gerir þjónustusamning skal vera með eða hafa aðgang að starfsstöð innan hlutaðeigandi þjónustusvæðis til að tryggja eftir föngum að dýraeigendur fái ávallt dýralækna- og bráðaþjónustu innan hæfilegs tíma. Dýralækninum er heimilt að sinna bráða- og dýralæknaþjónustu á öðrum svæðum en tilgreind eru í samningi þessum. Með sama hætti er öðrum dýralæknum heimilt að bjóða fram þjónustu sína á þjónustusvæðinu. Æskilegt er að umsækjandi hafi góða þekkingu á staðháttum og sjúkdómastöðu á viðkomandi svæði. Góð íslenskukunnátta æskileg.
Um eftirfarandi þjónustusvæði er að ræða:
- Þjónustusvæði 1: Eyja- og Miklaholtshreppur, Snæfellsbær, Grundafjarðarbær, Helgafellssveit og Stykkishólmsbær.
- Þjónustusvæði 4: Húnaþing vestra (nema fyrrum Bæjarhreppur), Húnavatnshreppur, Blönduósbær, Skagabyggð og Sveitarfélagið Skagaströnd.
- Þjónustusvæði 5: Þingeyjarsveit (nema Fnjóskadalur), Skútustaðahreppur, Tjörneshreppur og Norðurþing (vestan Blikalónsdals og Hófaskarðs).
- Þjónustusvæði 6: Norðurþing (austan Blikalónsdals og Hófaskarðs), Svalbarðshreppur, Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppur.
- Þjónustusvæði 7: Fljótsdalshérað, Fljótsdalshreppur, Borgarfjarðarhreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður, Fjarðabyggð, Fáskrúðsfjörður, Stöðvarfjörður og Djúpavogshreppur (norður af Djúpavogi).
- Þjónustusvæði 8: Sveitarfélagið Hornafjörður og Djúpavogshreppur (Djúpivogur og suður af honum).
- Þjónustusvæði 9: Skaftárhreppur og Mýrdalshreppur.
Nánari upplýsingar um dýralæknaþjónustuna og gerð þjónustusamnings veitir Þóra Jónasdóttir yfirdýralæknir (thora.jonasdottir hjá mast.is) í síma 530 4800. Jafnframt er vísað til reglugerðar um dýralæknaþjónustu í dreifðari byggðum landsins.
Umsóknir skulu sendar í tölvupósti á netfangið starf@mast.is merktar “Dýralæknir – þjónustusvæði”. Umsóknarfrestur er til og með 13. apríl 2025.