Fara í efni

Dýralæknar í dreifðum byggðum og sláturhúsaeftirlit

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Dýralæknaþjónusta í dreifðari byggðum

Matvælastofnun auglýsir eftir sjálfstætt starfandi dýralæknum til að taka að sér almenna dýralæknaþjónustu og bráðaþjónustu í dreifðari byggðum landsins frá og með 1. nóvember nk. í samræmi við reglugerð nr. 846/2011. Með reglugerðinni er ætlað að tryggja dýraeigendum nauðsynlega almenna þjónustu og bráðaþjónustu við dýr á landssvæðum þar sem fjöldi dýra er takmarkaður  og/eða verkefni dýralækna af skornum skammti.


Um er að ræða dýralæknaþjónustu í dreifðari byggðum á Þjónustusvæði 4:  Húnaþing vestra, Blönduósbær, Skagabyggð, Sveitarfélagið Skagaströnd og Húnavatnshreppur.

Gerður verður þjónustusamningur við dýralækni/dýralækna á viðkomandi þjónustusvæði og með honum tryggir MAST mánaðarlega greiðslu til að sinna dýralækna- og bráðaþjónustu.

Dýralæknir sem gerir þjónustusamning skal vera með starfsstöð innan þjónustusvæðisins til að tryggja eftir föngum að dýraeigendur fái ávallt dýralækna- og bráðaþjónustu innan viðunandi tíma. Dýralækninum er heimilt að sinna bráða- og dýralæknaþjónustu á öðrum svæðum en tilgreind eru í samningi þessum. Með sama hætti er öðrum dýralæknum heimilt að bjóða fram þjónustu sína á þjónustusvæðinu.


Sláturhúsaeftirlit – Norðvesturumdæmi

Matvælastofnun auglýsir jafnframt eftir sjálfstætt starfandi dýralæknum til að taka að sér eftirlit í sláturhúsi eða sláturhúsum í Norðvesturumdæmi. Um er að ræða sláturhúsin á Hvammstanga og Blönduósi.


Nánari upplýsingar veita Halldór Runólfsson og Hafsteinn Jóh. Hannesson  í síma 530-4800. Jafnframt er vísað til reglugerðar  nr. 846/2011 um dýralæknaþjónustu í dreifðari byggðum landsins. Umsóknum um þjónustusvæði skal skilað til Matvælastofnunar, Austurvegi 64, 800 Selfoss, merktum “Dýralæknir – þjónustusvæði 4” og/eða “sláturhúsaeftirlit“eftir því hvað við á, eða með tölvupósti á starf@mast.is en umsóknarfrestur er til og með 25. október 2011.



Getum við bætt efni síðunnar?