Fara í efni

Dreifingarbann á sláturhús staðfest

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Nýlega staðfesti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið með úrskurði ákvörðun Matvælastofnunar að stöðva tímabundið markaðssetningu afurða frá sláturhúsi.

Fulltrúar Matvælastofnunar mættu til eftirlits í sláturhúsið í janúar 2016. Koma þeirra var ekki boðuð fyrirfram en þeim var þá neitað um aðgang að sláturhúsinu enda væri engin vinnsla í gangi á staðnum og taldi fulltrúi sláturhússins að stofnuninni væri skylt að boða fyrirfram komu sína til eftirlits. Fóru eftirlitsmennirnir þá af vettvangi.

Matvælastofnun boðaði síðan bréflega að til stæði að stöðva markaðssetningu afurða frá sláturhúsinu vegna þess að ekki tókst að framkvæma eftirlit. Að loknum lögbundnum andmælarétti var sláturhúsinu tilkynnt um stöðvun markaðssetningar í febrúar. Daginn eftir tilkynnti sláturhúsið að dyr þess stæðu eftirlitsmönnum opnar. Eftirlitið fór síðan fram í byrjun mars og sama dag var stöðvun dreifingar aflétt.

Deilt var um hvort ákvörðun Matvælastofnunar um stöðvun dreifingar hefði verið réttmæt. Ráðuneytið úrskurðaði að svo hefði verið. Samkvæmt lögum og reglugerðum værir stofnuninni ekki einungis heimilt heldur skylt að framkvæma eftirlit hjá matvælafyrirtækjum án fyrirvara. Stofnunin hefði sinnt leiðbeiningarskyldu sinni og hvorki brotið meðalhófsreglu né rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. 

Enn fremur liðu tvær vikur frá því að forsvarsmenn sláturhússins tilkynntu að dyr þess stæðu eftirlitsmönnum opnar og þangað til eftirlitið fór síðan fram. Ráðuneytið taldi það of langan tíma þótt það hefði ekki áhrif á niðurstöðu málsins.


Getum við bætt efni síðunnar?