Díoxín í fóðri og matvælum í Þýskalandi staðan í dag
|
|
Búið er að rekja
uppruna díoxínsmengunarinnar í Þýskalandi til eins fyrirtækis sem
framleiðir fitu til notkunar í fóðurblöndur. Fyrirtækið fékk sendingar
af fitusýrum frá lífdíselframleiðanda sem voru að hluta mengaðar af
díoxíni. Umræddar sendingar voru afhentar síðari helming nóvembermánaðar
og var gengið út frá því að öll fóðurfita frá fyrirtækinu frá 12.
nóvember væri mögulega menguð. Meintri mengaðri fóðurfitu var dreift til 25 fóðurfyrirtækja í Þýskalandi. Ekkert af þessari fitu fór í dreifingu utan Þýskalands. |
Fóðurblöndur frá ofangreindum 25 fyrirtækjum kunna þ.a.l. að hafa verið mengaðar og voru þær notaðar til fóðrunar á varphænum, kjúklingum, kalkúnum, mjólkurkúm, nautgripum, kanínum, gæsum og öndum á búum sem voru nær eingöngu í Þýskalandi. Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir fóru umræddar fóðurblöndur ekki í dreifingu utan Þýskalands fyrir utan tvær sendingar til Danmerkur til fóðrunar á stofnfuglum í alifuglaeldi. Það fóður hefur verið rakið og fóru stofnfuglarnir ekki inn í matvælakeðjuna.
Dreifing mengaðrar fitu og fóðurs, ásamt afurðum frá búum sem grunuð voru um að hafa móttekið mengað fóður var stöðvuð þar til niðurstöður efnagreininga lágu fyrir. Í fyrstu lágu 4.760 bú undir grun en sá fjöldi var kominn niður í 316 miðað við þær rannsóknarniðurstöður sem unnið hafði verið úr þann 14. janúar. Sama dag kom í ljós að eitt fóðurfyrirtækjanna hafði greint rangt frá í dreifingarlista sínum og hafði jafntframt ranglega skráð fituinnihald í fóðurblöndu fyrirtækisins. Þýsk yfirvöld stöðvuðu þá að nýju dreifingu frá fóðurfyrirtækinu og þeim búum sem tekið höfðu á móti fóðurblöndu frá fyrirtækinu þar til að rannsóknarniðurstöður berast frá þessum aðilum. Málshöfðun er í undirbúningi gegn fyrirtækinu.
Þann 24. janúar ríkti sölu- og dreifingarbann yfir 589 búum í Þýskalandi og er mest um svína- og kjúklingabú að ræða, en fáein mjólkurbú sæta einnig rannsókn.
Af sýnum úr eggjum frá eggjabúum undir grun greindust 31 af 174 sýnum yfir hámarksgildum ESB. Af 102 sýnum úr svínakjöti greindist 1 yfir hámarksgildum. Sýni sem tekin voru úr mjólk og kjúklinga-, kalkúna- og nautakjöti reyndust öll undir hámarksgildum.
Verið er að rekja og innkalla allar afurðir frá menguðum búum.
Samkvæmt þeim upplýsingum sem lágu fyrir þann 24.01.11 hafa engar mengaðar dýraafurðir verið fluttar út til þriðju ríkja skv. upplýsingum Evrópusambandsins (ESB) en Ísland flokkast sem þriðja ríki af ESB þegar kemur að útflutningi á búfjárafurðum. Leiði frekari rannsóknir í ljós að slíkur útflutningur hafi átt sér stað verða viðkomandi ríki upplýst í gegnum hraðviðvörunarkerfi Evrópu um matvæli og fóður (RASFF).
Matvælastofnun hefur, með aðstoð fóðurframleiðenda, staðfest að það hráefni sem flutt hefur verið inn til fóðurgerðar eigi ekki uppruna að rekja til mengunarinnar. Ekki hefur verið hægt að rekja innflutning á búfjárafurðum til mengunarinnar og er því ekki ástæða að ætla að díoxínmengaðar afurðir hafi borist til landsins.
Ítarefni