Fara í efni

Búnaðarmál flytjast til Matvælastofnunar

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Ný skrifstofa búnaðarmála hóf starfsemi innan Matvælastofnunar í upphafi þessa árs. Á síðasta ári voru samþykkt lög frá Alþingi um að stjórnsýsluverkefni í tengslum við búvörusamninga yrðu flutt frá Bændasamtökum Íslands til Matvælastofnunar frá og með 1. janúar 2016. Vinna við þennan flutning stjórnsýsluverkefna hefur verið samstarfsverkefni Matvælastofnunar, Bændasamtakanna og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Bændur munu verða varir við að frá og með 4. janúar 2016 munu Bændasamtökin ekki lengur hafa umsjón með stuðningsgreiðslum til bænda, heldur verður það verkefni Matvælastofnunar í umboði ríkisins.

Verkefni skrifstofu búnaðarmála eru stjórnsýsluverkefni í tengslum við búvörusamninga og búnaðarlagasamning í samræmi við búvöru- og búnaðarlög. Skrifstofan annast fag- og fjárhagslega framkvæmd verkefna á sviði landbúnaðar sem stjórnvöld og Alþingi felur Matvælastofnun. Verkefnin snúa m.a. að framkvæmd á stjórnvaldsákvörðunum um opinberar greiðslur til bænda, útreikningi, afgreiðslu og eftirliti með framkvæmd þeirra. Skrifstofan heldur utan um skrá um handhafa beingreiðslna og greiðslumark mjólkur og sauðfjárafurða auk þess að sjá um greiðslur til bænda samkvæmt samningum um starfsskilyrði í mjólkur-, sauðfjár- og grænmetisframleiðslu. Þannig eru eftirfarandi stuðningsgreiðslur á verksviði hinnar nýju skrifstofu: beingreiðslur, álagsgreiðslur vegna gæðastýrðar framleiðslu, gripagreiðslur í nautgriparækt, og geymslugjald vegna sauðfjárframleiðslu. Umsjón með styrkjum vegna nýliðunar í mjólkur- og sauðfjárframleiðslu, jarðabóta bænda, lýsingarbúnaði í gróðurhúsum og styrkir vegna vatnsveitna á lögbýlum eru sömuleiðis á verksviði skrifstofunnar. Þá safnar hún upplýsingum og birtir árlega skýrslu um framleiðslu búvara, vinnslu þeirra og sölu og gerir áætlanir um framleiðslu og sölu búvara. Söfnun hagtalna hvað varðar búfjárfjölda og fóðurbirgðir í tengslum við búfjáreftirlit verður eitt af verkefnum skrifstofu búnaðarmála. Því fylgir umsjón með tölvukerfinu Bústofni og þróun þess. Reglusetning og eftirlit með skráningu í hjarðbókargagnagrunna verður jafnframt á verksviði skrifstofu búnaðarmála hjá Matvælastofnun, sem um leið tekur við eftirfarandi tölvukerfum og gagnagrunnum: Tölvukerfið AFURÐ, greiðslukerfi landbúnaðarins, tölvukerfið MARK (skyldumerking búfjár) og sá hluti Bændatorgsins, sem snýr að fyrrgreindum stjórnsýsluverkefnum.

Starfsmenn nýrrar skrifstofu hjá Matvælastofnun verða fimm og er Jón Baldur Lorange framkvæmdastjóri hennar. Skrifstofan er staðsett í Bændahöllinni á 2. hæð og mun síðar sameinast öðrum starfseiningum Matvælastofnunar á Reykjavíkursvæðinu, en þar eru nú fyrir umdæmisskrifstofa Suðvesturumdæmis, þar sem starfa héraðsdýralæknir, eftirlitsdýralæknar og dýraeftirlitsmaður, og einnig skrifstofa inn- og útflutningsmála.

Með tilkomu nýrrar skrifstofu innan Matvælastofnunar hefur stofnunin tekið í notkun nýtt skipurit sem nálgast má hér að neðan.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?