Brigitte Brugger ráðin héraðsdýralæknir
Brigitte Brugger hefur verið ráðin í starf héraðsdýralæknis Norðvesturumdæmis. Brigitte hóf störf þann 11. ágúst síðastliðinn.
Brigitte lauk dýralæknanámi frá Háskólanum í Zürich, Sviss árið 1999 og hefur víðtæka reynslu á sviði dýralækninga. Síðast starfaði hún sem sérgreinadýralæknir alifugla hjá Matvælastofnun en áður sem eftirlitsdýralæknir á Suðurlandi, þar sem hún sinnti opinberu eftirliti bæði í sláturhúsum og í frumframleiðslu dýraafurða í fjósum og á nautgripa-, svína- og kjúklingabúum.
Brigitte segist hlakka til nýju starfanna: „Það er spennandi áskorun að takast á við starf héraðsdýralæknis á þessu mikilvæga svæði. Ég hlakka til að kynnast samstarfsfólki mínu, bændum og öðrum hagsmunaaðilum í umdæminu og leggja mitt af mörkum til að standa vörð um velferð dýra og matvælaöryggi.“
Héraðsdýralæknar gegna veigamiklu hlutverki innan Matvælastofnunar en alls eru þeir fjórir, einn í hverju umdæmi. Héraðsdýralæknar stýra umdæmisskrifstofum og eru virkir þátttakendur í stefnumótun innan stofnunarinnar og umbótum. Meginhlutverk þeirra er að skipuleggja og sinna opinberu eftirliti og vinna þannig að aukinni velferð og bættu heilbrigði og sjúkdómavörnum dýra og manna.