Breytt skilyrði fyrir innflutningi hunda og katta
Frétt -
12.03.2020
Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Nýjar reglur um innflutning og einangrun gæludýra hafa nú tekið gildi. Þær fela í sér töluverðar breytingar á innflutningsskilyrðum hunda og katta. Þær helstu eru eftirfarandi:
- Stytting einangrunar úr 4 vikum í 14 daga fyrir hunda og ketti. Eins og fyrr verður um að ræða sk. allt-inn-allt-út kerfi í einangrun, þ.e. innritað er í einangrunarstöðvarnar á þriggja daga tímabili og svo dvelja öll dýr sem tilheyra sama einangrunarhópi í 14 daga í einangrun. Heimilt er að framlengja einangrun fyrir eitt dýr eða allan hópinn ef nauðsyn krefur vegna gruns um alvarlegan smitsjúkdóm.
- Sérþjálfaðir leiðsöguhundar einstaklinga með fötlun geta dvalið í heimaeinangrun (einnig í 14 daga). Sérstök skilyrði gilda um slíka heimaeinangrun.
- Eingöngu verður heimilt að flytja inn hunda og ketti frá viðurkenndum útflutningslöndum, þ.e. löndum þar sem fyrir hendi er viðunandi dýrasjúkdómastaða og dýraheilbrigðisþjónusta. Lista yfir viðurkennd útflutningslönd er að finna í viðauka við reglugerð um innflutning hunda og katta. Algengustu útflutningslönd gæludýra til Íslands undanfarin 5 ár voru metin m.t.t. ofangreinds og flokkuð með hliðsjón af stöðu þeirra gagnvart hundaæði. Ef dýr sem fyrirhugað er að flytja til Íslands er statt í landi sem ekki telst til viðurkenndra útflutningslanda er hægt að óska eftir því að viðkomandi land sé metið. Að öðrum kosti skal flytja dýrið til viðurkennds útflutningslands og þar skal það dvelja í a.m.k. 6 mánuði fyrir innflutning.
- Skilgreining landa m.t.t. hundaæðis, þ.e. annars vegar lönd án hundaæðis og hins vegar lönd þar sem hundaæði er haldið vel í skefjum, byggir á skilgreiningu alþjóðadýraheilbrigðisstofnunarinnar (OIE). Fleiri lönd teljast nú til landa án hundaæðis en áður gerði. Dýr sem koma frá löndum án hundaæðis þurfa þó bólusetningu gegn hundaæði við 12 vikna aldur og mótefnamælingu (til að staðfesta bólusetninguna) í fyrsta lagi 30 dögum síðar.
- Ýmsar aðrar breytingar eru varðandi bólusetningar, sýnatökur og meðhöndlun fyrir innflutning.
- Ekki er kveðið á um tiltekinn lágmarksaldur við innflutning en dýr frá löndum án hundaæðis geta líklega uppfyllt innflutningsskilyrði við u.þ.b. 4,5 mánaða aldur. Dýr sem koma frá löndum þar sem hundaæði er haldið vel í skefjum geta uppfyllt innflutningsskilyrði við u.þ.b. 7 mánaða aldur.
- Gerð er krafa um opinbera áritun vottorða í útflutningslandi, líkt og m.a. gildir um vottorð vegna dýra sem flutt eru frá Íslandi til Evrópusambandslanda. Slíkt er talið auka öryggi vottorða og draga úr líkum á fölsunum.
Leiðbeiningar, vottorð og önnur gögn sem byggja á nýjum reglugerðum eru í vinnslu hjá Matvælastofnun og verða birt á vefnum jafnóðum og þau eru tilbúin.
Innflytjendum dýra sem fyrirhugað er að flytja inn í marsmánuði og eiga bókað pláss í einangrun hafa nú þegar fengið bréf þar sem fram kemur hvaða áhrif nýjar reglugerðir hafa á innflutninginn. Dýr sem fyrirhugað er að flytja inn í apríl skulu uppfylla kröfur nýju reglugerðanna.