Fara í efni

Bólusetningar gegn garnaveiki

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Eins og kunnugt er þá er garnaveiki í sauðfé einn af þeim sauðfjársjúkdómum sem unnið er að útrýmingu á í samráði við sauðfjárbændur. Síðastliðið haust kom út endurskoðuð reglugerð nr.933/2007 um bólusetningu sauðfjár og geitfjár til varnar garnaveiki. Garnaveiki var áður útbreidd víða um land, en henni hefur nú verið útrýmt á nokkrum svæðum landsins og til mikils er að vinna að fjölga svæðum jafnt og þétt sem laus eru við veikina. Sýnt hefur verið fram á að með vel skipulögðum bólusetningum á garnaveikissvæðum er hægt að ná þessu takmarki. Sýkillinn er þó erfiður viðfangs og halda verður áfram bólusetningnum í a.m.k. 10 ár eftir að síðasta tilfelli hefur greinst á svæðinu.

Nú í haust er Matvælastofnun með sérstakt átak í gangi við skipulagningu á bólusetningum á garnaveikisvæðum og markmiðið er að hvert einasta ásetningslamb og kið verði bólusett sem allra fyrst á haustinu og eigi síðar en 31. desember. Allir eigendur sauðfjár og geitfjár á garnaveikisvæðum eru hér með eindregið hvattir til að hafa samband við sinn héraðsdýralækni og tilkynna honum um þau ásetningslömb sem þarf að bólusetja.

Hvar er garnaveiki, hvað er til varna?

Garnaveiki er smitandi, langvinnur, ólæknandi bakteríusjúkdómur, sem leggst á kindur, geitur, nautgripi og hreindýr. Hún er þekkt á Suð-Austurlandi frá Berufirði að Öræfum, Suður- og Vesturlandi frá Markarfljóti að Gilsfirði og á Norðurlandi frá Hvammstanga að Skjálfandafljóti. Annars staðar þar sem veikin hefur fundist hefur henni verið útrýmt. Það virðist augljóst að garnaveiki má útrýma alls staðar en til þess þarf skipulag, vilja og samstöðu. Ásetningslömb ætti að taka undan ánum og setja á ósýkt tún og síðar í hrein hús, nota hrein drykkjarílát og ómengað hey, bólusetja í september á garnaveikibæjum eða fyrr, jafnvel að vorinu. Seinna má bólusetja á ósýktum bæjum, en engin kind ætti að vera óbólusett um áramót neins staðar. Látið ekki uppdráttarkindur, hugsanlega garnaveikismitbera, í sömu stíu og lömbin.

Sjúkdómsorsökin, tjón, framkvæmd varna

Garnaveikisýklarnir eru skyldir hinum illræmdu berklasýklum og mjög lífseigir. Þeir geta lifað í eitt ár utan húss og eitt og hálft ár innan húss. Veikin er skæð í sauðfé og geitum 18 mánaða og eldri og getur drepið hluta fullorðna fjárins árlega, ef ekki er regla á bólusetningunni. Bólusetning seint þ.e. um og eftir hátíðar getur tryggt áframhaldandi garnaveiki. Hvergi má vera óbólusett lamb um áramót. Dauðsföll í óbólusettu fé geta verið 10-40% árlega. Aðeins ein bólusetning nógu snemma er nóg til að líftryggja kind gegn garnaveiki. Bólusetning of seint virðist geta bælt niður veikina en kindurnar geta þá verið frískir smitberar. Ef veikin nær að magnast getur hún haldið áfram á staðnum, þrátt fyrir bólusetningu. Þá getur þurft að skipta um fjárstofn, fella allt féð, sótthreinsa hús, tæki og búnað, fá ómengað hey og kaupa nýjan fjárstofn frá ósýktum bæ eða svæði. Veikin er fundvís á óbólusettar kindur á hvaða aldri sem er. Aðgerðir til að útrýmingar þarf að skipuleggja í samráði við dýralækni.

Hvenær má hætta að bólusetja?

Hætt verður að bólusetja um leið og það er talið öruggt og samstaða næst með heimamönnum í heilum varnarhólfum. Það afléttir miklum kostnaði af sauðfjárbændum, þjáningum af kindum, skemmdum á afurðum og slysahættu af bólusetningarmönnum. Aðeins einn maður, sem ekki lætur að stjórn og vísar ekki ásetningslömbum sínum til bólusetningar, getur spillt því að veikin verði upprætt á þeim stað en breiðst út um umhverfið að nýju og valdið því að bólusetja verður áfram í 10 ár á öllu svæðinu í stað þess að geta hætt og aflétt ókostunum..

Hvers vegna er nauðsynlegt að bólusetja snemma?

Lömbin fæðast án mótefna gegn garnaveiki. Í broddi vel bólusettrar kindar finnast kröftug mótefni gegn garnaveiki. Einni mínútu eftir að lambið hefur fengið brodd úr vel bólusettri móður mælast kröftug garnaveikimótefni í lambinu. Þau mótefni endast aðeins fram til haustrétta. Ef móðirin var illa bólusett, endast mótefnin skemur. Þegar mótefnin eru gengin til þurrðar er lambið óvarið gegn garnaveiki. Þá þarf að bólusetja ásetningslambið eða taka það úr hjörð, þar sem garnaveikismit leynist. Mótefni, sem lambið fær með svikalausri bólusetningu endast til æviloka og verja lambið. Eftir að mótefnin eru gengin til þurrðar smitast þau í sýktu umhverfi og veikjast eftir eitt til tvö ár eða verða smitberar árum saman og veikjast, þegar á móti blæs. Ef veikin er komin langt á leið þegar bólusett er, getur lambið snarveikst og drepist úr veikinni á stuttum tíma.

Nautgripir

Nautgripir veikjast tveggja og hálfs árs og eldri og tjón getur orðið mikið, ef ekki er gripið til varnarráða, sem felast í prófun á blóðsýnum eða mjólkursýnum úr öllum gripum tveggja vetra og eldri í hjörðinni oftar en einu sinni. Farga þarf grunsamlegum gripum og auka þrifnað og sóttvarnaraðgerðir í samráði við dýralækni. Einkum er mikilvægt að verja kálfana gegn smiti. Nautgripir eru ekki bólusettir. Nota má blóðsýni eða mjólk til að finna smitbera með mótefnaprófi og leita sýkla í saursýnum eða skrapi af slímhúð úr endaþarmi.

Hreindýr

Hreindýr geta tekið garnaveiki. Smithætta er mest, ef þau eru tekin á hús með sauðfé eða nautgripum á sýktum svæðum.

Ný reglugerð um bólusetningu gegn garnaveiki

Ný reglugerð um bólusetningu gegn garnaveiki nr. 933/2007 gekk í gildi á síðasta ári en kom seint og var ekki beitt að fullu þá. Nú á að fylgja ákvæðum hennar eftir. Nú skulu allir fjáreigendur á garnaveikisvæðunum (sjá hér að neðan), tilkynna héraðsdýralækni fyrir 1. nóvember um áætlaðan fjölda ásetningslamba og kiða. Þeir eru ábyrgir fyrir því að allt ásetningsfé þeirra sé bólusett og þeir eru skaðabótaskyldir, ef aðgerðaleysi þeirra eða gerðir valda sýkingu í ósýktu fé annarra manna. Þeir geta átt von á því að fé þeirra verði bólusett á þeirra kostnað, ef bólusetning bregst eða fellur niður. Héraðsdýralæknir safnar upplýsingum um alla nýja og gamla eigendur fjár á svæði sínu og hann tilnefnir bólusetningarmenn fyrir tiltekin svæði. Þeir skulu vera ábyrgir, hver fyrir sitt svæði að öll ásetningslömb séu bólusett fyrir tilskilinn frest og tilkynna um alla misbresti á því sem allra fyrst, svo að bregðast megi við í tæka tíð. Eftir sem áður geta menn átt val um bólusetningarmann, en það verður að ákveða fyrir fram og vera samþykkt af Matvælastofnun.

Garnaveikisvæðin:

  1. Suðurland vestan Markarfljóts og vestur til Gilsfjarðar
  2. Norðurland frá Húnaflóa að Skjálfandafljóti
  3. Austurland sunnan Berufjarðarbotns suður um og vestur að Öræfum
    (undanþegið bólusetningu er fé í Vestmannaeyjum, fé í Biskupstungum
    nema fé á einum bæ, fé í Miðfjarðarhólfi og fé í Grímsey).

Eyðublað fyrir tilkynningu fjáreiganda til héraðsdýralæknis um fjölda ásetningslamba og kiða og um staðsetningu þeirra má nálgast hér.

Nánari upplýsingar um garnaveiki má finna hér.


Getum við bætt efni síðunnar?