Fara í efni

Bólusetning ásetningslamba við garnaveiki

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Eins og kunnugt er þá er garnaveiki í sauðfé einn af þeim sauðfjársjúkdómum sem unnið er að útrýmingu á í samráði við sauðfjárbændur skv. reglugerð nr. 911/2011. 

Bólusetning ásetningslamba við garnaveiki á garnaveikisvæðum á að vera lokið fyrir 31. desember. Þó er mikilvægt að bólusett sé sem fyrst eftir að lömbin heimtast að hausti.

Hvers vegna er nauðsynlegt að bólusetja snemma? 


Lömbin fæðast án mótefna gegn garnaveiki. Í broddi vel bólusettrar kindar finnast kröftug mótefni gegn garnaveiki. Einni mínútu eftir að lambið hefur fengið brodd úr vel bólusettri móður mælast kröftug garnaveikimótefni í lambinu. Þau mótefni endast aðeins fram til haustrétta. Ef móðirin var illa bólusett, endast mótefnin skemur. Þegar mótefnin eru gengin til þurrðar er lambið óvarið gegn garnaveiki. Þá þarf að bólusetja ásetningslambið eða taka það úr hjörð, þar sem garnaveikismit gæti leynst. Mótefni sem lambið fær með réttri bólusetningu endast til æviloka og verja lambið. Ef lambið er ekki bólusett, smitast það í sýktu umhverfi og veikist eftir eitt til tvö ár eða verður smitberi árum saman og veikist, þegar á móti blæs. Ef veikin er komin langt á leið þegar bólusett er, getur lambið snarveikst og drepist úr veikinni á stuttum tíma.

Almenn atriði fyrir fjáreigendur

Látið ásetningslömb ekki ganga á túnum með fullorðnu fé að hausti og hafið ekki fullorðið fé í sömu stíum á húsi og ásetningslömbin. Haldið drykkjarílátum hreinum. Notuðum sprautum, nálum og glösum skal halda til haga og pakka, flytja og farga skv. reglugerð um meðhöndlun úrgangs nr. 737/2003. Einnig skal bólusetja öll lömb sem heimtast eftir að búið er að bólusetja fyrir garnaveiki.

Garnaveikisvæðin:

  1. Á Suðvesturlandi og Vesturlandi frá Markarfljóti að Hvammsfjarðarlínu úr Hvammsfirði í Hrútafjörð. Ekki er þó skylt að bólusetja á fjárskiptabæjum í Biskupstungum eða í Vestmannaeyjum. 

  2. Á Norðurlandi frá Húnaflóa að Skjálfandafljóti. Ekki er þó skylt að bólusetja í Miðfjarðarhólfi eða í Grímsey.

  3. Á Austurlandi, Jökuldalur og Jökulsárhlíð norðan Jökulsár á Dal og sunnan Smjörfjallalínu. Í Fjarðabyggð sunnan varnarlínu í botni Reyðarfjarðar og í Breiðdalshreppi austan Breiðdalsár.

  4. Á Suðausturlandi frá botni Berufjarðar að Jökulsá á Breiðamerkursandi

Ítarefni

Frétt uppfærð: 03.10.17 10.53


Getum við bætt efni síðunnar?