Fara í efni

Blý í túrmerik kryddi og vítamíndropar með of miklu magni af D-vítamíni

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun hefur fengið upplýsingar um eftirfarandi innkallanir í júlí í gegnum evrópska viðvörunarkerfið RASFF sem vert er að vekja athygli neytenda á. Ekki er vitað til að tilteknar vörur séu á markaði hér.

Um er að ræða danska D vítamíndropa sem mældust með 75 falt hærra magn en gefið er upp á pakkningu en samkvæmt dönsku fréttinni innihalda droparnir 150 µg en eiga að innihalda 2 µg. Tilkynnt hefur verið um fjöldi tilfella í Danmörku þar sem ungabörn hafa greinst með eitrunareinkenni eftir neyslu á dropunum. Droparnir hafa eingöngis verið til sölu í Danmörku.

Bandaríska matvæla-og lyfjaeftirlitið hefur mælt í reglubundnu eftirliti of hátt magn af blýi í tilteknum framleiðslulotum af nokkrum vörutegundum af túrmerik kryddi. Neysla á blýi er sérstaklega varasöm fyrir barnshafandi konur og börn. Innflytjendur á túrmerik kryddi frá Bandaríkjunum hafa staðfest til Matvælastofnunar að þessar vörutegundir eru ekki til sölu hérlendis.

Blýið getur stafað af því plantan er ræktuð í býmenguðum jarðvegi og þá fylgir einnig jarðvegur rótunum í þurrkun og mölun, en blýarsenat var notað sem skordýraeitur á fyrstu áratugum síðustu aldar og situr enn í jarðvegi í mismiklu magni eftir svæðum. Einnig getur blýið borist í kryddið við þurrkun og vinnslu vegna mengunar. Þá eru þekkt tilfelli þar sem blýi hefur viljandi verið bætt í túrmerik til að auka þyngd en kryddið er selt eftir vigt.

Krækja á dönsku innköllunarsíðuna (FVST) varðandi D-vítamíndropana og mynd af vörunni má sjá hér

Krækja á bandarísku matvæla-og lyfjaeftirlitsstofnunina (FDA)um innköllunina  á túrmerikkryddi og mynd af vörunum má sjá hér



Getum við bætt efni síðunnar?