Fara í efni

Betri merkingar á mat

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Miklar breytingar eru í vændum á reglum um merkingar matvæla. Að lokinni margra ára vinnu innan Evrópusambandsins við endurskoðun reglna um merkingar á matvælum er nú búið að gefa út reglugerðina „Food information to consumers“ eða „Upplýsingar um matvæli til neytenda“. Markmið reglnanna er að auðvelda neytendum að taka upplýsta ákvörðun við fæðuval með því að tryggja að mikilvægar upplýsingar sem tengjast heilnæmi, öryggi og innihaldi matvara birtist á viðunandi hátt á umbúðum og víðar. Reglugerðin verður tekin upp á Íslandi á næstu misserum og mun þá koma í stað núverandi reglna um merkingu matvæla, merkingu næringargildis o.fl.

Í nýju reglunum er lögð áhersla á skýrari upplýsingar fyrir neytendur. Þar má nefna skilgreiningu lágmarks-leturstærðar þess texta sem skylt er að merkja og áherslu á áberandi merkingu ofnæmisvalda í innihalds-lýsingu. Lögð er áhersla á að neytendur hafi ítarlegri upplýsingar en nú til að velja matvæli sem þeim henta. T.d. verður skylt að merkja næringargildi flestra pakkaðra matvæla. Frestur til að uppfylla þá kröfu er 3-5 ár. Ísland getur ákveðið hvort og þá hvernig á að næringargildismerkja matvæli í lausasölu, t.d. á veitingastöðum, bakaríum og salat- og sælgætisbörum.

Með breytingunum verður erfiðara að villa um fyrir neytendum um innihald og samsetningu matvæla. Auðvelt á að vera að greina vörur sem eru eftirlíkingar, s.s. ostlíki því að í slíkum tilfellum eiga upplýsingar um staðgönguhráefni að koma fram í tilgreindri leturstærð í nánd við heiti vöru. Skylt verður að merkja sérstaklega kjöt sem er samsett úr bitum þannig að það lítur út fyrir að vera heilt stykki. Sama á við um fisk. Ef meira en 5% af vatni hefur verið bætt í fisk- og kjötvörur sem líta út eins og stykki, sneiðar eða skrokkhlutar skal það koma fram í heiti vöru. Húðun á matvælum s.s. íshúð skal ekki reiknast inn í nettóþyngd matvæla.


Samkvæmt nýju reglunum skal upprunamerkja svína-, kinda-, geita- og alifuglakjöt, en nú þegar er skylt að upprunamerkja nautakjöt innan Evrópusambandsins. Á næstu árum verður skoðað hvort gera eigi kröfur um upprunamerkingar fleiri kjöttegunda og mjólkur, bæði fyrir hreinar vörur og þegar þessi hráefni eru meira en 50% af samsettri vöru.


Reglugerðin sameinar margar reglugerðir um merkingar matvæla undir einum hatti og felur í sér fleiri breytingar en þær sem hér eru nefndar. Jafnframt býður hún upp á setningu sérstakra landsákvæða og liggur endanleg birtingarmynd hennar hérlendis ekki fyrir að svo stöddu.


Matvælastofnun heldur fræðslufund um nýjar reglur um merkingar matvæla þriðjudaginn 6. desember kl. 15:00 – 16:00 í Inn- og útflutningsskrifstofu stofnunarinnar að Stórhöfða 23, 110 Reykjavík (gengið inn í húsið að norðanverðu). Allir velkomnir!

Ítarefni
Getum við bætt efni síðunnar?