Fara í efni

Bakteríusýking olli faraldri smitandi hósta í íslenska hrossastofninum árið 2010

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Vísindagrein um rannsóknir á orsökum smitandi hósta hefur nú verið birt í hinu virta riti mBio

Smitandi hósti í hrossum setti mark sitt á alla hestatengda starfsemi í landinu árið 2010 og olli umtalsverðu fjárhagstjóni. Sem betur fer var ekki um mjög alvarleg veikindi að ræða þar sem hrossin fengu alla jafna ekki hita og afföll voru lítil. Þrálátur hósti gerði það hins vegar að verkum að ekki var hægt að nota hross til reiðar í nokkrar vikur og jafnvel mánuði og aflýsa þurfti mörgum hestaviðburðum. Landsmóti hestamanna var frestað um eitt ár með miklum tilkostnaði. Þá stöðvaðist útflutningur hrossa á meðan á faraldrinum stóð.

Í byrjun var talið að um veirusýkingu væri að ræða enda var útbreiðslan hröð á vormánuðum þegar mikill fjöldi hrossa var á húsi og mótahald innanhúss í hámarki. Niðurstöður ítarlegra og umfangsmikilla veirurannsókna reyndust þó neikvæðar fyrir allar þekktar hrossaveirur að því undanskildu að gammaherperveirur greindust í nokkrum hrossum,  jafnt veikum sem heilbrigðum, er útilokaði að þær gætu verið orsök faraldursins. Áður hafði verið sýnt fram á gammaherpesveirur eru landlægar hér á landi í hrossum og hafa fylgt hrossakyninu frá landnámi.

Bakterían  Streptococcus equi subsp. zooepidemicus (S. zooepidemicus) ræktaðist hins vegar nær undantekningalaust úr sýnum úr nösum hóstandi hrossa. Í byrjun var það túlkað sem kjölfarssýking enda  er bakterían vel þekkt sem fylgikvilli annarra sýkinga í hrossum. Sömuleiðis er ekki óalgengt að hún ræktist úr einkennalausum hrossum.

Erfðagreining (whole genome sequencing , WGS) á  S. zooepidemicus ræktunum leiddi í ljós nokkra stofna bakteríunnar sem skipta mátti í fjóra megin flokka eftir skyldleika. Einn þessara stofna, ST209, reyndist hafa víðfeðmasta landfræðilega útbreiðslu samhliða því að erfðabreytileikinn innan stofnsins var áberandi lítill samanborið við hina stofnana. Þessi stofn fannst ekki í safni eldri sýna sem varðveitt eru á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að  Keldum. Niðurstöðurnar bentu ákveðið til þess að stofninn væri tiltölulega nýr í landinu, hefði breiðst hratt út og væri orsök smitandi hósta.

Með smittilraun og áframhaldandi erfðafræðilegum rannsóknum (CRISPR) fengust frekari sannanir á að þessi tiltekni stofn smitaðist milli hesta og leiddi til dæmigerðra einkenna smitandi hósta. Smittilraunin skilaði enn fremur ítarlegri meinafræðilegri lýsingu á sjúkdómnum.

Faraldsfræðilegar rannsóknir sýndu að rekja mátti upphaf faraldursins til hestamiðstöðvar á Suðurlandi en þangað virðist smitefnið hafa borist á tímabilinu 5. – 19. febrúar 2010. Í lok mars hafði það borist á að minnsta kosti 26 stórar tamningastöðvar víðsvegar um sunnan-, vestan- og norðanvert landið, fyrst og fremst með flutningum á smituðum hrossum sem ekki voru farin að sýna einkenni, en einnig með reiðtygjum. Meðgöngutími sjúkdómsins reyndist nokkuð langur, 2-4 vikur og því til viðbótar tók það annan eins tíma fyrir smitefnið að magnast upp í hesthúsi eða hrossahjörð áður en af fjöldasýkingu gat orðið. Þegar tilkynning um smitsjúkdóm barst Matvælastofnun, 7. apríl 2010, hafði sjúkdómurinn búið um sig í allt að tvo mánuði og var þegar orðinn útbreiddur um mest allt land.

Erfðafræðilegar aðferðir voru enn fremur notaðar til að meta hversu langt var í sameiginlegan uppruna þeirra baktería sem ræktuðust í faraldrinum. Líklegast er að upprunan megi rekja til ársins 2008 með eins árs vikmörkum. Það þýðir að líklegast hefur smitefnið borist til landsins að minnsta kosti ári áður en faraldurinn braust út án þess að ná að valda umtalsverðum veikindum hjá hrossum í millitíðinni. Ályktað var að notkun á vatnshlaupabretti á fyrrgreindri hestamiðstöð á Suðurlandi, hefði skapað bakteríunni sérlega hagstæðar aðstæður til smitmögnunar og dreifingar á smiti og lagt þannig grunninn að faraldrinum.

Þó svo S. zooepidemicus  sé fyrst og fremst sjúkdómsvaldur hjá hrossum ræktaðist bakterían bæði úr hundum og köttum. Sömuleiðis voru dæmi um að bakterían ræktaðist úr fólki, þar af eitt tilfelli þar sem ST209 greindist í tengslum við mjög alvarleg veikindi.

Rannsóknin leiddi í ljós  að þessi nýi stofn, ST209, er nú landlægur í hrossum hér á landi og veldur helst einkennum hjá ungum hrossum sem ekki hafa myndað mótstöðu gegn honum. Ekki er vitað hvernig hann barst til landsins en skyldir stofnar hafa greinst í hrossum í Skandinavíu. Líklegasta smitleiðin er ólöglegur innflutningur á beislisbúnaði sem notaður hafði verið erlendis.  

Innflutningur lifandi hrossa var bannaður með lögum árið 1882 og er það án efa mikilvægasta hindrunin í að smitsjúkdómar berist í íslenska hrossastofninn. Innflutningur á notuðum búnaði svo sem reiðtygjum og járningaáhöldum og óhreinum fatnaði sem notaður hefur verið í umhverfi hrossa er einnig bannaður enda ber hann með sér umtalsverða hættu á að ný og alvarleg smitefni berist til landsins.

Faraldur smitandi hósta var rækileg áminning um þörfina á að framangreindar smitvarnir séu virtar. Þeir sem stunda hestatengda atvinnustarfsemi eiga að hafa forgöngu um að fylgja þessum smitvörnum og upplýsa annað hestafólk um gildi þeirra til að  vernda okkar einstaka hrossastofn. Ennfremur er mikilvægt að hestaeigendur séu vel vakandi fyrir sjúkdómseinkennum í hrossum og tilkynni tafarlaust til Matvælastofnunar ef vart verður við einkenni sem bent gætu til smitsjúkdóms.

Dýralæknum sem sendu sýni til greininga á Keldum og söfnuðu mikilvægum klínískum og faraldsfræðilegum upplýsingum er þakkað fyrir þeirra framlag sem og þeim fjölmörgu hrossaeigendum sem lögðu rannsókninni lið. Landsamband hestamannafélaga, Félag hrossabænda og Dýralæknafélag Íslands voru mikilvægir bakhjarlar.

Atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytið veitti styrk til rannsóknarinnar; Veirurannsóknir fóru fram á Tilraunastöð Háskóla íslands í meinafræði að  Keldum og á rannsóknarstofum í Þýskalandi (Giessen) og Svíþjóð (SVA). Bakteríugreining, smittilraun í hrossum og meinafræðilegar rannsóknir voru gerðar af Tilraunastöðinni að Keldum. Söfnun og úrvinnsla faraldsfræðilegra gagna var á höndum Matvælastofnunar.

Stofnagreiningar og aðrar erfðafræðilegar rannsóknir á bakteríunni fóru fram við Animal Health Trust og Sangers Institute í Bretlandi og var sá hluti rannsóknarinnar styrktur af þeim stofnunum og Wellcome Trust Foundation.

 

Ítarefni:

Greinin í fullri lengd

http://mbio.asm.org/content/8/4/e00826-17.long

Erlendar fréttatilkynnningar og umfjallanir

http://www.aht.org.uk/cms-xmodnewsrss_detail/Icelandic_ponies.html

http://www.sanger.ac.uk/news/view/mystery-epidemic-crossed-species-iceland-solved

http://icelandreview.com/de/news/2017/08/01/erreger-der-pferdeseuche-identifiziert

http://www.thehorse.com/articles/39495/bacteria-behind-mystery-epidemic-in-icelands-horses

www.growkudos.com/publications/10.1128%25252Fmbio.00826-17/reader

www.horsetalk.co.nz/2017/08/01/scientists-bug-icelands-horses/#axzz4rKq9k57E

http://www.horsehour.co.uk/animal-health-trust-helps-to-solve-mystery-epidemic-that-crossed-species-in-iceland/?utm_content=buffere2438&utm_medium=social&utm_source=twitter.com&utm_campaign=buffer


Getum við bætt efni síðunnar?