Fara í efni

Bændur og breytingar á fóðurlöggjöf

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.


 

Á tíunda áratug síðustu aldar komu upp tilfelli kúariðu og díoxínmengunar í matvælum í Evrópu. Orsök þessa var rakin til fóðurs og því þótti ástæða til að breyta matvælalöggjöfinni þannig að hún næði yfir allt matvælaferlið, frá fóðri og frumframleiðslu að matborði neytenda og tryggði þannig örugg matvæli.
 
Matvælalöggjöfin nýja um öryggi matvæla og fóðurs felur í sér útvíkkun á því hvað „fóðurfyrirtæki“ merkir.  Samkvæmt henni eru hefðbundin íslensk bændabýli skilgreind sem fóðurfyrirtæki.  Reglugerð um fóður nær því yfir öflun, flutning, geymslu og meðhöndlun bænda á hvers konar fóðri.


Á tíunda áratug síðustu aldar komu upp tilfelli kúariðu og díoxínmengunar í matvælum í Evrópu. Orsök þessa var rakin til fóðurs og því þótti ástæða til að breyta matvælalöggjöfinni þannig að hún næði yfir allt matvælaferlið, frá fóðri og frumframleiðslu að matborði neytenda og tryggði þannig örugg matvæli.

Matvælalöggjöfin nýja um öryggi matvæla og fóðurs felur í sér útvíkkun á því hvað „fóðurfyrirtæki“ merkir.  Samkvæmt henni eru hefðbundin íslensk bændabýli skilgreind sem fóðurfyrirtæki.  Reglugerð um fóður nær því yfir öflun, flutning, geymslu og meðhöndlun bænda á hvers konar fóðri.

Hvað er fóðurfyrirtæki?

Í hinum almennu matvælalögum um öryggi og hreinleika fóðurs og matvæla er eftirfarandi skilgreining: „Fóðurfyrirtæki er  fyrirtæki sem starfar við framleiðslu, vinnslu, geymslu, flutning eða dreifingu fóðurs, þ.m.t. framleiðsla, vinnsla eða geymsla framleiðanda á fóðri handa dýrum á eigin bújörð, hvort sem fyrirtækið er rekið í ágóðaskyni eður ei og hvort sem það er einkarekið eða opinbert fyrirtæki“ .

Hefðbundin íslensk bændabýli eru því fóðurfyrirtæki. Fyrirtæki eða einstaklingar sem flytja fóður, t.d. bygg frá býli í þurrkstöð eða hey til hestamanna, eru fóðurfyrirtæki. Fyrirtæki og hver starfsstöð þess, sem þurrkar bygg, blandar fóður eða vinnur annað fóður, eru fóðurfyrirtæki. Fyrirtæki eða einstaklingar, sem afhenda vöru sem notuð er í fóður, eru fóðurfyrirtæki.

Stjórnendur fóðurfyrirtækja eiga að tilkynna Matvælastofnun um alla starfsemi fyrirtækis sem fellur undir skilgreiningu á fóðurfyrirtæki og fá hana skráða.  Fóðurfyrirtækjum er aðeins heimilt að fá og nota fóður frá fyrirtækjum sem eru skráð og/eða samþykkt hjá Matvælastofnun.  Listi yfir skráð og samþykkt fyrirtæki verður aðgengilegur á heimasíðu stofnunarinnar.

Litlar breytinga hjá bændum

Sveitarfélög hafa um langan aldur séð um búfjáreftirlit og forðagæslu auk ýmiskonar eftirlits með fóðri og fóðrun hjá bændum.  Árið 2003 var tekin upp gæðastýring í sauðfjárrækt þar sem sauðfjárbændur, sem taka þátt í henni, skrá ýmsar upplýsingar um beit, bústofn, fóðuröflun, húsakost o.fl., sem búfjáreftirlitsmenn athuga á hverju ári. Auk þessa skoða dýralæknar árlega aðstæður hjá mjólkurframleiðendum, á svínabúum og alifuglabúum.  Bændur og bændabýli eru auk þess skráð á ýmsum listum, bæði hjá Bændasamtökunum og Matvælastofnun.  Það verða því litlar breytingar hjá bændum, a.m.k. þeim sem hafa þegar komið sér upp gæðahandbók og sinnt skráningum skv. ofangreindu kerfi.  Starfsmenn Matvælastofnunar munu kappkosta að samþætta eftirlit vegna nýju löggjafarinnar því eftirliti sem fyrir er svo kostnaður og vinna aukist sem minnst.

Helstu ákvæði nýrrar reglugerðar

Ákvæði um meðferð fóðurs á bændabýlum og skráningu vegna frumframleiðslu á fóðri eru í I. viðauka reglugerðar EB nr. 183/2005 um kröfur varðandi hollustuhætti sem varða fóður.  Þar er áhersla lögð á öryggi fóðurs og að bændur geri allt sem hægt er til að koma í veg fyrir að fóður mengist eða skemmist af völdum vatns, jarðvegs, áburðar, varnarefna, lyfja, úrgangs eða sóttvarnar-/rotvarnarefna (sæfiefna).

Meðal annars er ætlast til að bændur tryggi:

  • þrif og sótthreinsun á aðstöðu og öllum búnaði sem fóður kemur nálægt.
  • að fóður sé hreint og skilyrði við meðhöndlun þess séu góð.
  • að notað sé hreint vatn,
  • að varist sé ágangi meindýra og annarra skaðvalda og komið sé í veg fyrir að búfé valdi mengun í fóðri,
  • að úrgangur, varnarefni, lyf og önnur varasöm efni séu  geymd aðskilin og á öruggum stað,
  • að tekið sé mið af hverskonar niðurstöðum greininga sem gerðar eru á sýnum úr fóðri.

Flest þessarra atriða eru tilgreind í gæðastýringu í sauðfjárrækt. Gæðakerfi sauðfjárræktarinnar gæti því orðið fyrirmynd að innra gæðakerfi annarrar búfjárframleiðslu.

Hvað skal skrá?

Gert er ráð fyrir að bændur skrái upplýsingar um þær ráðstafanir sem þeir grípa til, til að verjast hvers konar mistökum eða mengun sem orðið getur við fóðurframleiðslu, geymslu fóðurs og gjöf. Öll mistök, mengun eða skemmdir á fóðri á að skrá.

Ætlast er til að bændur skrái einkum:

  • alla notkun plöntuvarnarefna og sóttvarnar-/rotvarnarefna (sæfiefna),
  • öll tilvik skaðvalda eða sjúkdóma sem koma upp og geta haft áhrif á öryggi fóðurvara,
  • niðurstöður hvers kyns greininga, sem gerðar eru á sýnum, sem eru tekin úr fóðurvörum, eða öðrum sýnum sem eru tekin til sjúkdómsgreiningar og skipta máli í tengslum við öryggi fóðurs,
  • uppruna og magn fóðurs sem tekið er við ásamt ákvörðunarstað og magn fóðurs sem er afhent, til að tryggja REKJANLEIKA (eitt skef aftur og eitt skref fram).

Fleira nýtt

Í nýrri reglugerð um kröfur varðandi hollustuhætti sem varða fóður er ætlast til að allir þeir sem fóðra dýr sem alin eru til matvælaframleiðslu starfi eftir III. viðauka reglugerðarinnar: „Góðar starfsvenjur við fóðrun dýra“ .  Þar eru ákvæði varðandi beit, gripahús og fóðurgjafarbúnað, fóðrun, vatn, brynningarbúnað og starfsfólk.

Einnig eru þar ákvæði um regluleg þrif og örugga geymslu hreinsi- og sótthreinsiefna, meindýravarnir og að fóðurleifar og undirburður sé fjarlægður reglulega. Fóðrunarkerfi þarf að vera þannig úr garði gert að tryggt sé að rétt fóður sé gefið á réttum stað. 

Sá sem ber ábyrgð á fóðrun og hirðingu dýra skal búa yfir tilskilinni kunnáttu, þekkingu og hæfni.

Með viðbótum við gæðahandbók í sauðfjárrækt má tryggja að öll ofangreind atriði séu tilgreind þar.  Gæðahandbók og allar skráningar þurfa að liggja frammi fyrir þá eftirlitsmenn sem koma á búin.

Leiðbeiningar

Í nýju matvælalöggjöfinni eru ákvæði um að samdar skuli leiðbeiningar um t.d. frumframleiðslu fóðurs og góðar starfsvenjur við fóðrun dýra.  Gert er ráð fyrir að starfsgreinasamtök sjái um að útbúa leiðbeiningar vegna nýju laganna hvert fyrir sína félagsmenn.  Matvælastofnun hvetur samtök bænda til að endurskoða þær leiðbeiningar sem þegar eru fyrir hendi með það fyrir augum að þær nái yfir ákvæði nýrra reglugerða.

Reglugerðin gildir ekki um:

Ný reglugerð um kröfur varðandi hollustuhætti sem varða fóður gildir ekki um fóðrun dýra sem alin eru til matvælaframleiðslu séu afurðirnar ekki afhentar eða seldar heldur eingöngu neytt á býlinu sjálfu.
Einnig er undanþegið í reglugerðinni ef bjarga þarf nágranna um lítilræði af fóðri.

Hverjir þurfa ítarlegri gæðahandbók?

Fyrirtæki eða einstaklingar sem afla fóðurs og selja það þurfa að fara eftir ákvæðum II. viðauka reglugerðar 183/2005 um kröfur varðandi hollustuhætti sem varða fóður. Þar er gert ráð fyrir að slík fyrirtæki komi upp og viðhaldi skriflegu gæðakerfi  sem byggist á Haccp meginreglunum (þ.e. greining áhættu og mikilvægir stýristaðir).

Sama á við um fóðurfyrirtæki sem nota aukefni eða forblöndu aukefna (að undanskildum íblöndunarefnum til votheysverkunar) í fóðurblöndur. Þau þurfa, auk Haccp, sérstakt samþykki Matvælastofnunar.


Getum við bætt efni síðunnar?