Fara í efni

Auknar varúðarráðstafanir vegna fuglaflensu enn í gildi

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í lok mars á þessu ári birti atvinnuvega- og landbúnaðarráðuneytið auglýsingu um aukið viðbúnaðarstig vegna fuglaflensu. Auglýstar varúðarráðstafnir eru enn í gildi.

Mjög fáar tilkynningar hafa borist um fuglaflensu í Evrópu undanfarnar vikur, eins og búist var við. Hætta á sýkingu fugla með fuglaflensuveirum er mun minni í hlýjum mánuðum, þar sem veirurnar varðveitast best í köldu umhverfi.

Þó virðist sem hættan sé ekki yfirstaðin. DEFRA í Bretlandi birti í apríl nýtt áhættumat um fuglaflensu. Niðurstaðan var að hætta á fuglaflensa væri miðlungs í villtum staðfuglum í Bretlandi, með miðlungs óvissu, en smithætta fyrir alifugla væri lág. Það skiptir þó máli hversu góðar smitvarnir á búum væru. Reikna þurfti með því að hópar með aðgang að útisvæðum gætu smitast frekar.

Eins og reiknað var með í áhættumatinu þá kom upp fuglaflensa í byrjun maí í tveimur hópum bakgarðsfugla á sama svæði í Bretlandi. Á einu búi drápust 20 af 34 fuglum áður en gripið var til niðurskurðar. Á hinu búinu drápust 2 fuglar í hópi með 9 fuglum áður en fuglaflensa var greind og hópnum fargað. Í báðum tilfellum var um sermisgerðina H5N8 að ræða.

Í lok mars var þess ekki lengur krafist í Svíþjóð að alifuglar væru haldnir undir þaki eða innandyra en ráðlagt að hafa áfram auknar smitvarnir þar sem hættan var ekki yfirstaðin. Það reyndist einnig rétt, fuglaflensa af sermisgerðinni H5N8 greindist á stóru varphænsnabúi í lok apríl og þurfti að farga öllum hænum á búinu.

Hér á landi hefur enn sem komið er ekki fundist fuglaflensa í sýnum úr dauðum villtum fuglum. Samtals hafa verið rannsökuð 14 sýni hjá Tilraunastöðinni á Keldum, þar sem rannsóknir fara fram.

Í april voru tekin sýni úr heilbrigðum villtum fuglum, samtals um 200 sýni. Niðurstöður úr sýnum eru væntanlegar á næstu dögum. Þegar þær hafa borist getur hópur sérfræðinga tekið afstöðu til þess hvort smithætta sé orðin lítil og forsvaranlegt sé að lækka áhættustigið.

Matvælastofnun óskar áfram eftir tilkynningum um dauða villta fugla í gegnum ábendingakerfi stofnunarinnar. 

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?