Fara í efni

Aukin tilfelli af Listeria og Salmonella í fólki

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Á liðnu misseri hafa tilfelli af Listeria monocytogenes og Salmonella Typhimurium aukist í fólki. Uppruni sýkinganna er enn óljós og er unnið að því að rekja upprunann í samvinnu við sóttvarnalækni.

Brýnt er fyrir neytendum að verjast smiti með réttri meðhöndlun matvæla og kynna sér hvaða matvæli fólk í áhættuhópum ætti að vera vakandi fyrir, til að lágmarka áhættu með tilliti til Listeria monocytogenes.  Í áhættuhóp eru aldraðir, barnshafandi konur, ung börn og fólk með skert ónæmiskerfi.  Einstaklingar úr áhættuhóp ættu að varast að borða, reyktan og grafin fisk,  hráan fisk, hrátt kjöt, ósoðin og/eða lítið hitaðan mat.

 

Aukin tilfelli af Listeria monocytogenes

Á þessu ári  hafa tilfelli af matarsýkingum af völdum Listeria monocytogenes verið óvenju mörg og því var ákveðið í samvinnu við sóttvarnarlækni að kanna hvort um matarborna sjúkdómshrinu gæti verið að ræða. Þeir sem veiktust voru allir í áhættuhóp. Faraldsfræðilegar rannsóknir standa nú yfir og því er ekki hægt að segja til um, hver uppruninn er og þá hvort að hann sé sá sami í öllum tilfellum.  Matvælastofnun brýnir fyrir matvælaframleiðendum að sinna sýnatökum sem þeim er skylt að viðhafa og mun fylgja því eftir með eftirliti. Stofnunin hefur einnig endurskoðað leiðbeiningar um sýnatökur vegna Listeria monocytogenes og hvetur matvælafyrirtæki til að kynna sér þær. 

Listeria monocytogenes er baktería sem er til staðar í náttúrunni, meðal villtra dýra, plantna og í jarðvegi. Ef bakterían berst með einhverjum hætti í matvæli og aðstæður eru henni hagstæðar til fjölgunar, getur hún orðið hættuleg neytendum, einkum þeim sem eru veikir fyrir, s.s. öldruðum, barnshafandi konum, ungum börnum  og fólki með skert ónæmiskerfi. 

Aukin tilfelli af Salmonella Typhimurium  

Í ágúst og september var aukning á matarsýkingum af völdum af Salmonella Typhimurium. Nýlega kom í ljós við stofnagreiningu bakteríunnar að flestir stofnanna virðast mjög skyldir og því má vænta að uppruninn sé sá sami.  Þó er ekki hægt að fullyrða að allir aðilar hafi smitast af sömu matvöru, því mynstrið sem kom fram í stofnagreiningunni er tiltölulega algengt í Evrópu. Frábrugðið mynstur kom fram í einu tilfelli, en það mynstur hefur fundist hér á landi við eftirlit við slátrun svína en það er einnig algengt erlendis. Því er ekki hægt að slá því föstu að svo stöddu, hvort smitið sé frá innlendum eða innfluttum  matvælum. 

Matvælastofnun vinnur að nánari faraldsfræðilega greiningu, í samvinnu við sóttvarnarlækni, til að reyna að komast nær uppruna sýkinganna, m.a  með heilraðgreiningum og samanburði við aðra Salmonella Typhimurium stofna, bæði hérlendis og erlendis.     

Þekkt er að svínakjöt, líkt og alifuglakjöt, eru matvæli með aukna áhættu m.t.t. Salmonella og því er mikið opinbert eftirlit og forvörnum beitt til að lágmarka að smitaðar afurðir berist á markað (sjá ítarefni). Salmonella í svínakjötsframleiðslu er viðvarandi vandamál hérlendis og víða erlendis, því ber ávallt að meðhöndla svínakjöt samkvæmt því. 

Matvælastofnun vill benda neytendum á að þrátt fyrir fyrirbyggjandi aðgerðir og öflugt eftirlit er aldrei hægt að koma fyllilega í veg fyrir Salmonella í kjöti. Neytendur þurfa því ætíð að hafa hugfast að hrátt kjöt geti verið mengað af sjúkdómsvaldandi örverum. Ávallt ber því að meðhöndla hrátt kjöt m.t.t. þessa og gæta fyllsta hreinlætis við matreiðslu, koma í veg fyrir krosssmit úr hráu kjöti í matvæli sem tilbúin eru til neyslu og huga að því að kjötið sé nægilega vel eldað/hitað, sér í lagi svína- og alifuglakjöt.

Ítarefni:Getum við bætt efni síðunnar?