Fara í efni

Aukið viðbúnaðarstig vegna fuglaflensu enn í gildi

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Þann 15. mars birti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið auglýsingu um tímabundnar sóttvarnaráðstafanir til að fyrirbyggja að fuglaflensa berist í alifugla og aðra fugla í haldi, á grundvelli tillögu Matvælastofnunar. Ekki er hægt að aflétta varnaraðgerðunum að svo stöddu vegna áframhaldandi greiningar á fuglaflensu í villtum fuglum á vetrarstöðvum íslenskra farfugla sem enn streyma til landsins. Þó hefur ekki greinst fuglaflensa í dauðum fuglum sem Matvælastofnun hefur fengið vitneskju um frá almenningi en greiningar eru fáar. 

Síðan í byrjun árs hafa Matvælastofnun borist 20 ábendingar frá almenningi um fund á veikum eða dauðum villtum fuglum. Oftast var um staka fugla að ræða en í einhverjum tilvikum eins og í Hornafirði í apríl fundust tveir hópar dauðra heiðagæsa. Tólf ábendingar voru um andfugla, fimm um spörfugla, ein um vaðfugl (hrossagauk), ein um sjófugla (dílaskarfa) og ein um hænsnfugl (rjúpu). Sýni hafa hingað til verið tekin og rannsökuð úr samtals tíu fuglum á sex stöðum og voru þau öll neikvæð. Upplýsingar um skimun á fuglaflensu í villtum fuglum frá og með árinu 2020 má finna á kortasjá Matvælastofnunar

Finnist fuglaflensa í villtum fugli mun Matvælastofnun tafarlaust upplýsa eigendur alifugla og almenning um það. Sérstakt eftirlit verður haft með heilbrigði alifugla og annarra fugla í haldi, í a.m.k. fjórar vikur á svæði innan við 10 kílómetra frá fundarstað fuglsins og annarstaðar eftir þörfum. Matvælastofnun mun einnig meta þörf á takmörkunum á flutningi fugla á þeim tíma. Þess vegna ítrekar stofnunin að allir sem halda alifugla skrái sitt fuglahald í gegnum þjónustugátt Matvælastofnunar svo stofnunin geti haft samband ef þörf er á. 

Áfram er mikilvægt fyrir Matvælastofnun að fá tilkynningu frá almenningi um dauða villta fugla nema augljóst sé að þeir hafi drepist af slysförum. Með vöktun á fuglaflensu í villtum fuglum getur Matvælastofnun metið smithættu fyrir alifugla og aðra fugla í haldi. Smithætta er einnig metin út frá stöðu greininga í villtum íslenskum farfuglum á vetrarstöðvum þeirra. Horft er sérstaklega til norðurhluta Þýskalands, vesturhluta Danmerkur, Vaðlahafs og  Bretlandseyja. Í nýjasta áhættumati þýskrar rannsóknarstofu fyrir heilbrigði dýra (FLI) frá 26. apríl kemur fram að greiningar í villtum fuglum og alifuglum hafa á síðustu dögum verið á undanhaldi, og þar af leiðandi er smithætta fyrir alifugla metin í meðallagi. Á Bretlandseyjum eru áfram í gildi hertar smitvarnir fyrir alifugla og aðra fugla í haldi á öllu landinu sem voru tilkynntar þann 11. nóvember 2020. Í Danmörku þurfti nýlega að aflífa stóran hóp eldisanda og -gæsa. Einnig þar í landi eru hertar smitvarnir áfram í gildi sem voru settar þann 6. nóvember 2020. 

Í ljósi þessara upplýsinga frá erlendum stofnunum og þess að aðeins hefur verið hægt að rannsaka sýni frá sex stöðum úr villtum fuglum hérlendis, metur starfshópur um fuglaflensu að enn sé möguleiki á smiti frá villtum fuglum í alifugla og aðra fugla í haldi. Það má ganga út frá því að um leið og meginfjöldi farfugla er kominn til landsins og ekki greinist skæðar fuglaflensuveirur í þeim, geti Matvælastofnun lagt til við ráðherra að aflétta kröfum um tímabundnar varnaraðgerðir. Þegar sambærileg hætta var til staðar vegna fuglaflensu H5N8 í Evrópu árið 2017 var varnaraðgerðum aflétt þann 19. maí það ár. Hvort um sama tímapunkt verði að ræða í ár kemur í ljós á næstu vikum. Þangað til er það samfélagsleg ábyrgð allra fuglaeigenda að fara eftir fyrirmælum um hertar sóttvarnaaðgerðir, því efnahagslegt tjón getur verið gífurlegt ef upp kemur fuglaflensa á alifuglabúi. Auk þess er ávallt hætta á að fuglaflensuveirur geti stökkbreyst með þeim afleiðingum að smithætta fyrir fólk aukist, ef þeim er ekki haldið í skefjum, þó svo engar vísbendingar hafi komið upp um aukna smithættu með þeim skæðum fuglaflensuveirum sem hafa fundist í Evrópu í vetur. 

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?