Fara í efni

Aukanámskeið um merkingar matvæla

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Vegna mikillar aðsóknar heldur Matvælastofnun aukanámskeið um merkingar matvæla mánudaginn 16. febrúar kl. 13-15 í inn- og útflutningsskrifstofu stofnunarinnar að Stórhöfða 23 í Reykjavík. Námskeiðið 11. febrúar er nú fullskipað og hefur verið lokað fyrir skráningar. Námskeiðið 16. febrúar verður sent út í beinni útsendingu á vef Matvælastofnunar undir Útgáfa - Fræðslufundir og verða glærur og upptaka gerðar aðgengilegar á vefnum að námskeiði loknu.

Þátttakendur þurfa að skrá sig á aukanámskeiðið með því að senda tölvupóst á netfangið skraning@mast.is með nafni, heiti fyrirtækis og netfangi fyrir 13. febrúar. Senda má inn fyrirspurnir sem óskað er eftir að svarað verði á fundinum til mast@mast.is fyrir 13. febrúar. Spurningar og svör verða birt á heimasíðu Matvælastofnunar. Fyrirlesari er Jónína Stefánsdóttir, fagsviðsstjóri hjá Matvælastofnun.

Nýjar reglur um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda hafa tekið gildi hér á landi. Með reglunum eru skilgreindar í einni reglugerð þær grunnupplýsingar sem neytendur eiga rétt á að vita og matvælafyrirtæki eru skyldug að veita um matvæli á öllum stigum matvælaframleiðslu og dreifingu.

Reglugerð nr. 1294/2014 um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda gerir kröfu um skýrari merkingar og ítarlegri og nákvæmari upplýsingar um innihald matvæla. Í henni eru m.a. gerðar ríkari kröfur um læsileika á umbúðum, framsetningu upplýsinga um ofnæmisvalda í matvælum, næringarupplýsingar á forpökkuðum matvælum, merkingar á viðbættu vatni í kjöti og fiski og upprunamerkingar á kjöti. Skylt er að hafa aðgengilegar upplýsingar um matvæli sem seld eru í fjarsölu áður en kaup fara fram. Breytingar eru á reglum um geymsluþolsdagsetningar á matvælum og leyfilegt er nú að selja matvöru eftir aðBest fyrir dagsetning er útrunnin. Geymsluþol viðkvæmra matvæla skal vera merkt með „Notist eigi síðar en“ eða „Síðasti notkunardagur*“. Ekki er heimilt að selja þau matvæli eftir að dagsetning er liðin þar sem matvælin eru þá ekki talin örugg til neyslu.

Reglugerðin gildir um matvælafyrirtæki á öllum stigum matvælaferlisins þegar starfsemi þeirra varðar miðlun matvælaupplýsinga til neytenda. Hún gildir um öll matvæli sem ætluð eru neytendum, þ.m.t. matvæli sem stóreldhús afgreiða og matvæli sem ætluð eru fyrir stóreldhús.

Reglugerð nr. 1294/2014 er innleiðing á reglugerð Evrópusambandsins nr. 1169/2011 um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda. Frestur til að uppfylla reglugerðina í Evrópusambandinu var til 13. desember 2014 og því þurfa íslensk matvæli sem flytja á til landa Evrópusambandsins að uppfylla þessar reglur (sjá 54. grein reglugerðar ESB nr. 1169/2011). Hér á landi er veittur frestur til 13. maí 2015 fyrir vörur á íslenskum markaði (sjá bráðabirgðaákvæði í lok reglugerðar nr. 1294/2014). Matvæli sem sett eru á markað eða eru merkt fyrir 13. maí 2015 og eru merkt í samræmi við reglugerðir sem féllu úr gildi við þessa breytingu, en uppfylla ekki kröfur nýju reglugerðarinnar, eru leyfileg í sölu á meðan birgðir endast.

Ítarefni

*Ákveðið hefur verið að breyta reglugerð nr. 1294/2014 þannig að í stað orðanna „notist eigi síðar en…“, skv. a-lið 2. tölul. X. viðauka reglugerðar (ESB) nr. 1169/2011, er heimilt að nota orðin: „Síðasti notkunardagur.“


Getum við bætt efni síðunnar?