Fara í efni

Ársfundur MAST 2016: Hagur neytenda

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun heldur ársfund sinn þriðjudaginn 5. apríl nk. kl. 13:00 - 16:40 á Hótel Reykjavík Natura (Loftleiðum). Viðfangsefnið að þessu sinni verður hagur neytenda. Dagskrá snýr jafnt að neytendum og framleiðendum matvæla þar sem rætt verður hvernig við tryggjum hag neytenda þegar kemur að öryggi matvæla og upplýsingagjöf um þau. 

Miklar framfarir hafa orðið í neytendamálum að undanförnu. Með tilkomu Skráargatsins og nýrrar reglugerðar um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda munu þeir hafa aðgang að hnitmiðaðri upplýsingum um eðli og innihald þeirra matvara sem þeir neyta. Nýja upplýsingareglugerðin og Skráargatið verða til umfjöllunar á fundinum, ásamt upplýsingastefnu Matvælastofnunar og fyrirhugaðri fésbókarsíðu tileinkaðri hagsmunum neytenda. Einnig verður fjallað um hvenær og hvernig matvæli eru innkölluð af markaði og hvaða reglur gilda um plast og aðrar umbúðir í snertingu við matvæli. Þá verður frammistöðuflokkun Matvælastofnunar kynnt og hvernig upplýsa megi neytendur um það hvernig matvælaframleiðendur standa sig. 

Á ársfundinum verða jafnframt kynntar nýjar niðurstöður mælinga Matvælastofnunar á ýmsum efnum í matvælum s.s. salti og transfitusýrum í matvælum; nítríti og saltpétri í kjöti; og þungmálmum, histamíni og PAH-efnum og listeríu í dýraafurðum. Farið verður yfir niðurstöður mælinga á illgresiseyðum og skordýraeitri í grænmeti og ávöxtum og lyfjaleifum í dýraafurðum. Sýklalyfjaþol baktería er vaxandi vandamál á heimsvísu. Á ársfundinum verður einnig farið yfir stöðuna á Íslandi hvað varðar sýklalyfjanotkun og lyfjaþol. 

Nauðsynlegt er að skrá sig á ársfundinn. Skráning fer fram á netfanginu mast@mast.is og verður opið fyrir skráningar til 4. apríl. Vinsamlega tilgreinið nafn, fyrirtæki/samtök/stofnun og netfang við skráningu.

Ársfundurinn er öllum opinn og þátttakendum að kostnaðarlausu. Matvælastofnun hvetur alla þá sem láta neytendamál sig varða, neytendur jafnt sem framleiðendur, að mæta og leggja orð í belg. Boðið verður upp á gagnvirkar umræður í lok fundar. Fundarstjóri er Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður, og er dagskrá aðgengileg hér að neðan. 

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?