Áríðandi tilkynning til eigenda útigangshrossa
Eigendur útigangshrossa um allt land þurfa að búa sig undir að verja hross sín fyrir öskufalli. Of seint er að bregðast við eftir að umtalsvert öskufall er skollið á. Miðað við veðurspá fyrir næstu daga er mest hætta á öskufalli í Rangárvallasýslu en hrossaeigendur á öllu suður- og suðausturlandi þurfa að vera í viðbragðsstöðu. |
Þar sem mikið öskufall verður er hrossum bráð hætta búin af því að anda að sér öskunni, drekka mengað vatn og éta hana í sig með menguðu fóðri. Því þarf að hýsa öll hross á þeim svæðum. Sé það ekki hægt þarf að flytja hross á öruggari svæði.
Forðast skal þó flutninga á fylfullum hryssum, einkum af innan við mánuður er í köstun. Sé ekki hægt að hýsa þær með góðu móti skal þeim haldið heim við hús þar sem hægt er að vatna þeim með hreinu vatni og verja fóður fyrir mengun.
Skapist hætta á langvarandi flúormengun er mikilvægast er að verja trippi í vexti því þeim er hættast við varanlegu tjóni á tönnum og beinum. Þá er fylfullum hryssum sérlega hætt við kalkskorti í blóði sem er lífshættulegt ástand.