Fara í efni

Áminning vegna vanmerkingar matvæla felld úr gildi

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur fellt úr gildi áminningu sem heilbrigðisnefnd Suðurnesjasvæðis veitti verslun á starfssvæði nefndarinnar. Áminningin sem veitt var skv. 30. gr. laga um matvæli var tilkomin vegna ítrekaðra brota á reglugerðum um merkingu matvæla. Verslunin kærði þessa áminningu til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og fór fram á að áminningin yrði felld úr gildi. Með úrskurði sínum felldi ráðuneytið áminninguna úr gildi og féllst þannig á sjónarmið kæranda.

Í úrskurði ráðuneytisins kom fram að áminning telst til þvingunarúrræða, þ.e. til að knýja á um aðgerðir. Áminning telst ekki til refsikenndra stjórnsýsluviðurlaga. Markmiðið er að þvinga fram breytingar á tilteknu ástandi. Við meðferð málsins var hins vegar óljóst hvaða aðgerðir heilbrigðisnefndin vildi knýja fram með því að áminna kærandann, þannig hafi kæranda verið ómögulegt að bregast við tilkynningu um fyrirhugaða áminningu með aðgerðum. Sömuleiðis hafi ekki verið rannsakað af hálfu heilbrigðiseftirlitisins hvort enn var þörf á úrbótum áður en ákvörðun um áminninguna var tekin. Þessu þvingunarúrræði var því ekki beitt með réttum hætti og var af þessum ástæðum hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?