Fara í efni

Alvarlegur smitsjúkdómur í hrossum í Evrópu

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Ekki sér fyrir endann á alvarlegum smitsjúkdómi í hrossum af völdum hestaherpes veiru týpu-1 (EHV-1), sem kom upp á stóru móti í hindrunarstökki í Valencia á Spáni í febrúar sl. Um er að ræða mjög sjúkdómsvaldandi afbrigði veirunnar sem veldur heilabólgu og lömun. Veiran smitar ekki menn. 

Fjöldi hrossa yfirgaf mótssvæðið um það leyti sem grunur vaknaði um sjúkdóminn sem leiddi til þess að nú hafa sjúkdómstilfelli, sem rekja má til mótsins í Valencia, verið staðfest í 8 löndum. Þetta eru Svíþjóð, Þýskaland, Belgía, Sviss, Frakkland, Spánn, Ítalía og Katar. Auk þess berast fréttir um sjúkdóminn frá Bandaríkjunum en þau tilfelli eru ótengd smitinu í Evrópu.

Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóða hestasambandinu, FEI, er staðfest að 10 hross hafi drepist, 8 á Spáni og 2 í Þýskalandi, en óstaðfestar fregnir eru um fleiri dauðsföll auk þess sem fjöldi hrossa er fárveikur.

EHV-1 er sérhæfð hestaveira sem veldur ævilöngu smiti í þeim hrossum sem hún berst í. Veiran hefur þróað með sér leiðir til að verjast ónæmiskerfi hrossanna og getur legið í dvala árum saman. Við tilteknar aðstæður, svo sem flutninga og keppni sem felur í sér mikið álag á hrossin, getur sýkingin blossað upp og veiran margfaldast í slímhúð öndunarvegarins. Hrossin taka þá að skilja út veiruna í miklu magni og getur hún hæglega borist 5 metra með útöndunarlofti. Þar sem fjöldi hrossa hefst við í sama loftrými, eins og gerist á stórmótum þar sem hross eru haldin í stórum tjaldhesthúsum,  skapast mikil hætta á að veiran magnist upp. Við svo mikið smitálag virðist ekki vörn í bólusetningu og mikil hætta á að hrossin veikist.

Fyrstu einkennin eru hiti og kvef. Veiran berst með hvítfrumum í blóðið og í alvarlegustu tilfellum þaðan í miðtaugakerfið, heila og mænu. Þau verða þá óstöðug, fyrst á afturfótum, uns þau lamast og leggjast fyrir.

Alls er talið að um 1500 hross sem tengdust mótinu í Valencia séu nú á leið til síns heima víðsvegar í Evrópu. Þar sem um langt ferðalag getur verið að ræða þurfa þau að stoppa til að hvílast og því blasir við að stöðum þar sem hætta er á smiti fjölgar stöðugt. Enginn hefur fullkomið yfirlit yfir þá staði þrátt fyrir að mikið sé lagt í smitrakningu og eftirfylgni.

Þó svo veiran smitist helst með veikum hrossum getur hún einnig borist með sæði og fósturvísum, fólki, fatnaði og hvers kyns búnaði.

Okkar ströngu reglur til varnar smitsjúkdómum eru settar meðal annars út frá hættunni á að þessi sjúkdómur berist til landsins. Nú ríður á sem aldrei fyrr að allir fari eftir reglunum. Íslendingar sem ferðast vegna starfa sinna eða annarra tengsla við hestamennsku erlendis þurfa að sýna gott fordæmi og breiða út boðskapinn. Sömuleiðis þurfa allir sem taka á móti „hestaferðamönnum“ hér á landi að fullvissa sig um að viðskiptavinir þeirra hafi farið eftir reglunum. Það á ekki síst við um fólk sem kemur erlendis frá til starfa hér á landi.

Munum að innflutningur á hvers kyns búnaði sem notaður hefur verið í umhverfi hesta erlendis er bannaður. Sömuleiðis er bannað að taka notaða reiðhanska með sér til landsins. Notaður reiðfatnaður skal þveginn í þvottavél og þurrkaður fyrir komuna til landsins. Reiðskó, hjálma og annað sem ekki getur farið í þvottavél skal sápuþvo, þurrka og úða með sótthreinsiefni (Virkon eða sambærilegu) fyrir komuna til landsins.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?