Fara í efni

Álit Umboðsmanns um ráðningu erlendra dýralækna

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Umboðsmaður Alþingis hefur lagt fram álit um að ráðning erlendra dýralækna af hálfu Matvælastofnunar til starfa í opinberri þjónustu fullnægi ekki skilyrði laga um að þeir hafi vald á íslenskri tungu. Hlutfall erlendra dýralækna í störfum hjá stofnuninni hefur aukist á undanförnum árum þar sem ekki hefur tekist að ráða íslenskumælandi dýralækna í tiltekin störf. Það er mat stofnunarinnar að án ráðningar erlendra dýralækna geti hún ekki sinnt skyldum sínum og án viðveru opinbers dýralæknis geti sláturhús ekki starfað. Mikilvægt er að bregðast við þessu og skoða leiðir til úrbóta.

Matvælastofnun hefur ítrekað auglýst tilteknar stöður dýralækna lausar án þess að dýralæknar með vald á íslenskri tungu hafi sótt um. Við slíkar aðstæður hafa erlendir dýralæknar verið ráðnir. Í áliti sínu bendir umboðsmaður á að í niðurstöðu hans felist ekki afstaða til þess hvort og þá hvaða þýðingu lög um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan EES kunna að hafa við ráðningar í einstök og nánar afmörkuð störf hjá stofnuninni. Þennan þátt málsins þyrfti því að skoða nánar, þar sem þróun mála í nágrannalöndum okkar hefur verið sú sama á undanförnum árum. Í Noregi hefur matvælastofnunin þar t.d. á síðustu árum í auknum mæli ráðið dýralækna bæði frá ríkjum innan og utan EES og þá meðal annars til starfa við eftirlit í sláturhúsum og í Danmörku var krafa um málakunnáttu dýralækna felld úr lögum fyrir nokkrum árum.

Hjá Matvælstofnun starfa í dag um 35 dýralæknar í fullu starfi. Um þriðjungur þeirra eru erlendir og stærstur hluti þeirra með takmarkað vald á íslenskri tungu. Stofnunin ræður auk þess dýralækna frá EES-ríkjum í tímabundnar ráðningar yfir sláturtíðina. Á annan tug erlendra dýralækna hafa verið ráðnir til slíkra starfa nk. haust. Ljóst er að án dýralækna mun Matvælastofnun ekki geta sinnt lögbundnum skyldum sínum. Í sláturhúsum er krafa um viðveru opinbers dýralæknis við alla slátrun, í þeim tilgangi að fylgja eftir kröfum um velferð dýra og öryggi afurða. Án viðveru opinbers dýralæknis geta sláturhús þar með ekki starfað.

Málið á sér langan aðdraganda og var m.a. bent á þennan vanda í úttekt Alþjóða dýraheilbrigðisstofnunarinnar (OIE) árið 2015, auk þess sem tilteknir eftirlitsþegar hafa kvartað undan skýrslum frá Matvælastofnun, sem ekki eru á íslensku. Umboðsmaður Alþingis tók málið fyrir í kjölfar kvörtunar Dýralæknafélags Íslands. Álit umboðsmanns byggir á lögum nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr þar sem fram kemur að dýralæknar sem starfa í opinberri þjónustu skulu hafa vald á íslenskri tungu. Álitið byggir jafnframt á lögum nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Umboðsmaður beinir því til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Matvælastofnunar að framvegis verði unnið í samræmi við þessi lög og álit umboðsmanns.

Erlendir dýralæknar sem ráðnir eru til starfa hjá Matvælastofnun koma flestir frá EES-ríkjum þar sem í gildi er sambærileg löggjöf og hér á landi vegna matvælaöryggis. Þeir starfa undir stjórn héraðsdýralækna í umdæmum stofnunarinnar og eru flestir starfandi í sláturhúsum, þó á því séu undantekningar. Án ráðningar erlendra dýralækna í stöður sem krefjast dýralæknismenntunnar liggur fyrir að stofnunina hefði skort á annan tug starfsmanna í föstu starfi og á annan tug tímabundinna stöðugilda til viðbótar yfir sláturtíðina.

Álit umboðsmanns Alþingis snýr að stjórnsýslu- og lagaumhverfi Matvælastofnunar. Af þeim sökum hefur stofnunin leitað til ráðuneytisins vegna lausna á þessum vanda á grundvelli álitsins, íslenskrar löggjafar og EES-samningsins. EES-samningurinn er grundvöllur frjáls flæðis íslenskra búfjárafurða í Evrópu, að uppfylltum þeim eftirlitskröfum sem Matvælastofnun ber að fylgja eftir. Verði misbrestur þar á eru þessi viðskipti í hættu og það sama getur þá átt við markaðssetningu á eigin markaði.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?