Fara í efni

Ákvörðun varðandi úthlutun á greiðslumarki staðfest

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur kveðið upp úrskurð vegna stjórnsýslukæru varðandi úthlutun á greiðslumarki í mjólk í febrúar sl.

Í 10. gr. reglugerðar nr. 1150/2016 um stuðning í nautgriparækt segir að greiðslufrestur vegna kaupa á greiðslumarki sé 20. febrúar. Kærendur óskuðu eftir greiðslufresti sem Matvælastofnun hafnaði og upplýsti að ekki væri hægt að skrá kaupin. Þann 21. febrúar var gengið frá uppfærslu á greiðslumarki skv. reglugerðinni. Þann 23. febrúar kröfðust kærendur þess að fá afhent það greiðslumark sem til stóð að úthluta gegn greiðslu. Matvælastofnun hafnaði viðtöku greiðslunnar og vísað til þess að ekki hefði verið heimild til að veita greiðslufrest. Í kjölfarið var málið kært til ráðuneytisins.

Í niðurstöðu ráðuneytisins segir að kærendur hafi ekki uppfyllt lögbundin skilyrði fyrir kaupum á innleystu greiðslumarki, sbr. 10. gr. reglugerðarinnar. Ráðuneytið taldi sjónarmið um meðalhóf ekki eiga við enda hefði Matvælastofnun ekkert svigrúm til að veita greiðslufrest skv. reglugerðinni. Þá taldi ráðuneytið að jafnræði aðila hefði verið gætt.

Ákvörðun Matvælastofnunar um að hafna greiðslu frá kæranda fyrir greiðslumark mjólkur var því staðfest.


Getum við bætt efni síðunnar?