Fara í efni

Ákvörðun um höfnun á innflutningi skrautfugla staðfest

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur staðfest ákvörðun Matvælastofnunar að hafna innflutningi á 358 skrautfuglum vegna sníkjudýrasmits.  Til stóð að selja fuglana í gæludýraverslun að sóttkví lokinni.

Fuglarnir voru fluttir til landsins í febrúar 2018 með leyfi Matvælastofnunar. Þeir voru hafðir í sóttkví hjá innflytjanda þar sem þeir áttu upphaflega að dvelja í fjórar vikur. 

Á meðan á einangrunartímanum stóð greindist sníkjudýr í fuglunum, m.a. norræni fuglamítillinn. Var þetta í fyrsta sinn sem hann greinist á Íslandi.  Svo fór að í júní höfðu 37% fuglanna drepist í sóttkvínni og var stór hluti þeirra affalla ekki tilkynntur til Matvælastofnunar eins og skylt var. 

Norræni fuglamítillinn er þekktur skaðvaldur erlendis, m.a. á alifuglabúum. Hætta var á að smit bærist í aðra fugla og að mítillinn næði fótfestu hérlendis með tilheyrandi tjóni.

Fuglunum var fargað að kröfu stofnunarinnar í framhaldi af því. Þeir voru þá enn í sóttkví.

Innflytjandi taldi að Matvælastofnun hefði hvorki sinnt rannsóknarskyldu sinni né gætt meðalhófs við meðferð málsins.  Ráðuneytið féllst ekki á þau rök. Matvælastofnun hefði kannað hvort hægt væri að útrýma umræddum mítli en mat það að lokum svo að ekki væri hægt að sýna fram á fullnægjandi aðferð til þess.

Ráðuneytið taldi að ekki væri hægt að tryggja að smit bærist ekki í aðra fugla í landinu. Samkvæmt 15. gr. laga um innflutning dýra bæri Matvælastofnun að hefta útbreiðslu smitsjúkdóma sem upp koma í einangrunarstöðvum. Var því höfnun innflutnings staðfest af ráðuneytinu.

Ítarefni

Uppfært 25.03.21 kl. 10:05


Getum við bætt efni síðunnar?