Fara í efni

Ákvörðun Matvælastofnunar um stjórnvaldssekt á hendur rekstrarleyfishafa í sjókvíaeldi staðfest

Þann 11. apríl sl., var kveðinn upp úrskurður í matvælaráðuneytinu þar sem staðfest var ákvörðun Matvælastofnunar frá 25. nóvember 2022, um álagningu stjórnvaldssektar að fjárhæð kr. 120.000.000 á hendur rekstrarleyfishafa í sjókvíaeldi, vegna brota á lögum um fiskeldi nr. 71/2008. Brot leyfishafans fólust í því að hafa ekki sinnt skyldu sinni til að tilkynna strok á eldisfiski úr einni kví í júní 2022 og beita sér fyrir veiðum á 81.564 strokufiskum.

Alls hafði 132.976 löxum verið komið fyrir í kvínni í október 2020 og júlí 2021. Skráð afföll voru 33.097 fiskar en í október 2022, þegar slátrun var lokið úr kvínni, reyndist fjöldinn sem kom upp úr kvínni hins vegar vera aðeins 18.315 laxar.

Leyfihafi tilkynnti í ágústlok 2021 að gat hefði fundist á einni sjókví. Þá voru viðbrögð fyrirtækisins í samræmi við kröfur sem gerðar eru þegar slíkir atburðir eiga sér stað.

Þegar tölur úr slátruninni úr kvínni í október 2022 lágu fyrir og ljóst var að ekki var hægt að gera grein fyrir afdrifum rúmlega 80 þúsund laxa, hóf Matvælastofnun strax rannsókn og krafði leyfishafa meðal annars um skýringar á misræmi í fóðurgjöf m.v. uppgefinn fjölda fiska. Kom þá í ljós að veruleg frávik höfðu orðið í fóðurgjöf í kví frá því í júní 2021, eða tveimur mánuðum áður en tilkynnt var um gatið, sem hefðu átt að vekja sterkar grunsemdir fyrirtækisins um að eitthvað alvarlegt væri á seyði.

Samkvæmt 1. gr. laga um fiskeldi eru markmið laganna meðal annars þau að stuðla að ábyrgu fiskeldi og tryggja verndun villtra nytjastofna og taldi Matvælastofnun að um alvarlegt brot væri að ræða, bæði út frá umfangi og hættu fyrir villta nytjastofna og lífríki. Matvælastofnun getur lagt stjórnvaldssekt á þá aðila sem brjóta gegn skyldu um að tilkynna um strok á fiski og beita sér fyrir veiðum á strokfiski, hvort sem umrædd brot megi rekja til ásetnings eða gáleysis.

Jafnframt segir í lögunum að við ákvörðun sektar skuli m.a. tekið tillit til alvarleika brots, hvað það hafi staðið lengi og þeirra hagsmuna sem eru í húfi.

 

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?