Fara í efni

Áhrif verkfalls á velferð dýra

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Fagráð um velferð dýra fundaði þriðjudaginn 5. maí. Til fundarins var boðað að beiðni fulltrúa Bændasamtaka Íslands í ráðinu. Umræðuefni fundarins voru áhrif verkfalls dýralækna hjá Matvælastofnun á velferð dýra.Samkvæmt lögum um velferð dýra nr. 55/2013 skal starfa sérstakt fagráð um velferð dýra. Í ráðinu sitja fimm aðilar. Yfirdýralæknir er formaður ráðsins en aðrir fulltrúar eru skipaðir af Bændasamtökum Íslands, Dýralæknafélagi Íslands, Dýraverndarsambandi Íslands og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. 

Hlutverk fagráðsins er: 

  • Að vera Matvælastofnun til ráðuneytis um stefnumótun og einstök álitaefni er varða málefni á sviði velferðar dýra, 
  • að veita Matvælastofnun umsögn um umsóknir vegna dýratilrauna, 
  • að fylgjast með þróun dýravelferðarmála og upplýsa Matvælastofnun um mikilvæg málefni á sviði velferðar dýra, 
  • að taka til umfjöllunar mál á sviði velferðar dýra að beiðni einstakra fagráðsmanna. 

Á fundi fagráðsins í gær, var rætt um áhrif verkfalls dýralækna hjá Matvælastofnun á velferð dýra. Í lok fundarins var svohljóðandi ályktun samþykkt:

Fagráð um velferð dýra lýsir yfir þungum áhyggjum vegna áhrifa yfirstandandi verkfalls dýralækna hjá Matvælastofnun á velferð dýra. Ráðið hvetur stofnunina til þess að hafa náið eftirlit með velferð eldisdýra á meðan á verkfalli stendur. Í þeim tilvikum sem ljóst er að þéttleiki sláturdýra er yfir leyfilegum mörkum þarf að bregðast við strax með slátrun. Ráðið tekur ekki afstöðu til þess hvort afurðir séu geymdar eða settar á markað.

Við þær mjög erfiðu aðstæður sem verkfall dýralækna hjá Matvælastofnun veldur hefur stofnunin reynt að tryggja svo sem kostur er að dýr þurfi sem minnst að líða og hefur í því skyni sent fjölmargar beiðnir til undanþágunefndar, um leyfi til að kalla starfsfólk stofnunarinnar út til að sinna eftirliti á sláturhúsum, kanna ástand á búum og bregðast við ábendingum um brýn mál er varða dýravelferð. Undanþágur hafa verið veittar í mörgum tilvikum en þar til í morgun hafa engar undanþágur verið samþykktar vegna slátrunar á svínum. Matvælastofnun hefur áhyggjur af ástandi mála, sér í lagi á svínabúum, og mun halda áfram að sækja um undanþágu frá verkfalli fyrir starfsfólk stofnunarinnar til fylgjast með dýravelferð.


Getum við bætt efni síðunnar?